Eitt mesta fjör miðaldra fólks og eldri borgara á samfélagsmiðlum á sér nú stað á Málspjallinu á facebook undir stjórn Eiríks Rögnvaldssonar íslenskufræðings.
„Mér þykir leitt að þurfa enn einu sinni að minna á að athugasemdir við málfar og yfirlýsingar um vanþóknun á málfari eiga ekki erindi í þennan hóp. Orðalag eins og „þessi setning stakk mig“ og „þessi setning misbýður minni málvitund“ í innleggjum hér í gærkvöldi og morgun fellur augljóslega undir þetta og höfundum þessara innleggja hlýtur að vera það ljóst,“ skrifar Eiríkur sem eyðir innleggjum notenda fb-síðunnar vinstri hægri þessa dagana.
Samstöðin fjallaði um athugasemdir lögmanns í gær sem sakar Eirík um ritskoðun og rof á tjáningarfrelsi. Því hafnar Eíríkur, enda er Málspjall hans eigin þráður þar sem hann er sjálfur ritstjóri.
Leikar eru hins vegar enn að æsast, því annar íslenskufræðingur, Höskuldur Þráinsson, skrifar í morgun athugasemd.
Hann segir vissulega æskilegt að reyna að stuðla að málefnalegri umræðu um málfar.
„En það getur verið vandasamt. Mér finnst til dæmis vafamál að það sé niðrandi og kalli á rauða spjaldið að segja „þessi setning stakk mig“ eða „þessi setning misbýður minni málvitund“. Merkir þetta ekki bara að setningarnar séu í ósamræmi við málvitund þess sem skrifar?“
Undir skoðun Höskuldar taka fleiri á þræðinum en Eiríkur verst fimlega og kennir ekki vegmæði í hans herbúðum.
„En hvað kemur okkur það við?“ Spyr Eiríkur kollega sinn Höskuld á móti.
„Efni þessara innleggja var alveg þess eðlis að sjálfsagt er að ræða það hér (efni annars hefur ótal sinnum verið rætt hér og ég er að skrifa pistil um efni hins) en það býður ekki upp á málefnalega umræðu að setja tóninn á þennan hátt. Ég hef lagt áherslu á að hér megi ræða hvaðeina sem snertir tungumálið en það eigi að gera án fordóma og hneykslunar.“
Við þessu bregst Erna Guðrún Árnadóttir sem gamall íslenskukennari og þulur:
„Nú er ég farin að efast eina ferðina. Ef eitthvað stingur mig í máli fréttamanns á ég þá að snúa mér beint til málfarsráðunautsins, verandi dóttir þess fyrsta, án þess að minnast á það hér? Almennt er mér mikið til sama um hvernig fólk talar og hef fengið ákúrur fyrir það, verandi sú sem ég er og gamall íslenskukennari að auki, en ég velti þessu fyrir mér. Er þetta ekki spurning um málvitund hvers og eins? Jafnvel mállýsku? Ég er ekki búin að gleyma skömmum að norðan sem faðir minn sálugi, bráðum 100 ára, þurfti að svara fyrir á meðan ég var þulur! Það hleypti bara í mig meiri þrjósku því að það var skoðun sumra að það ætti að tala norðlensku eins og Jónas Þorbergsson væri enn við stjórnvölinn!“
Samstöðin fjallaði í gær um þá alkunnu meðal íslenskra blaðamanna að almenningur veitir oft álitaefnum við ritun íslenskrar tungu og orðaval meiri áhuga en innihalds sjálfra fréttanna er kemur að viðbrögðum og athugasemdum.
Hitinn getur stundum orðið mikill. Og verður þá ekki þýðingarmeiri efnum gefinn gaumur á meðan…