„Þetta háa viðvarandi vaxtastig eru mikil vonbrigði,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, um ákvörðun Seðlabankans í morgun að lækka ekki vexti.
„Það skiptir neytendur miklu máli að ná hvorutveggja niður, verðbólgu og vaxtastigi, en ég lýsi eftir öðrum leiðum en þær sem farnar hafa verið. Ef verðbólgan er sjúkdómurinn sem venjulegt fólk sýpur seyðið af, þá er lækningin, hinir himinháu stýrivextir, að ganga af sjúklingnum dauðum.“
Stýrivextir erunú tvöfalt hærri á Íslandi en gengur og gerist í Evrópu.
„Raunstýrivextir, það er stýrivextir að frádreginni verðbólgu eru hér þriðjungi hærri og íbúðalánavextir nálægt 11 prósent,“ segir Breki. „Ég er hræddur um að ef þetta væri vaxtastigið í nágrannalöndunum væri allt farið úr böndunum,“ segir Breki í samtali við Samstöðina.
Oddný G. Haðardóttir, fyrrum fjármálaráðherra, situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
„Eftir hóflega kjarasamninga voru raunhæfar væntingar um að stýrivexti færu niður. En svo varð ekki og þær kjarabætur munu því ekki skila sér, í bili alla vega. Það eru sannarlega vonbrigði,“ segir Oddný í samtali við Samstöðina.
„Fjármálaráðherra á samkvæmt lögum að leggja fram fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 1. apríl. Peningastefnunefnd vill hugsanlega bíða eftir henni til að meta hvort ríkisfjármálin muni ýta undir verðbólgu með óskynsamlegum ráðstöfunum. Skýr skilaboð frá ríkisstjórn hafa ekki komið um við hverju má búast úr þeirri átt. Þau virðast ekki sammála um hvað gera skuli og því kannski skiljanlegt að beðið sé með stýrivaxtalækkanir,“ segir Oddný.
Í samtali við Vísi segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. að verið sé að murka lífið úr heimilum landsins.
Hann undrast að ekki fari fram óeirðir á götum úti vegna ákvörðunar Seðlabankans í morgun. Hann bendir á að seðlabankar annarra ríkja fari allt aðra leið en Seðlabanki íslands. Óvíst sé að ofurvextir gegn verðbólgu sem sliga skuldsetta leysi vanda heldur megi færa rök fyrir að vandinn stóraukist.