Ólafur segir stjórnarmeirihlutann hafa mokað undir stórfyrirtæki rekin með milljarðahagnaði

Neytendur 22. mar 2024

Samþykkt nýrra búvörulaga á Alþingi í gær færir ekki bara litlum sláturhúsum í rekstrarerfiðleikum líflínu, heldur veitir risastórum matvælafyrirtækjum heimild til samráðs og sameininga án þess að samkeppnisyfirvöld hafi að því nokkra aðkomu. Fyrirtækin sem um ræðir hafa á undanförnum árum hagnast um milljarðatugi þegar allt er saman tekið. 

Á þetta bendir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í færslu á Facebook. Breytingar á búvörulögum voru samþykktar í gær með atkvæðum stjórnarflokkanna og Miðflokksins, en hinir stjórnarandstöðuflokkarnir greiddu atkvæði gegn þeim. Breytingarnar voru gerðar þrátt fyrir víðtæka andstöðu, meðal annars frá Samkeppniseftirlitinu, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu og verkalýðshreyfingarinnar. Þannig lýsti ASÍ breytingunum sem stórhættulegum og í andstöðu við nýgerða kjarasamninga. 

Ólafur segir ágætt að halda því til haga hvaða fyrirtæki það séu sem með þessu hafi verið veitt víðtæk undanþága frá samkeppnislögum. 

„Þetta eru ekki bara lítil sláturhús á barmi gjaldþrots, eins og gefið var í skyn í umræðunum á þingi í gær. Þetta eru til dæmis eftirfarandi:

-Matfugl og Síld og fiskur/Ali. Langisjór, móðurfélag þessara fyrirtækja og fleiri, t.d. Ölmu leigufélags, hagnaðist um 3,9 milljarða 2022 og 13,7 milljarða árið áður.

– Kaupfélag Skagfirðinga. Var rekið með 1,7 milljarða króna hagnaði árið 2022 og 5,4 milljarða hagnaði árið áður. Hagnaðurinn er svo mikill að kaupfélagið hefur þurft að ávaxta hann með fjárfestingum í rekstri skyndibitastaða í Reykjavík.

– Sláturfélag Suðurlands. Hagnaður þess hefur farið vaxandi undanfarin ár; var 792 milljónir á síðasta ári skv. nýlegu uppgjöri, 549 milljónir árið 2022 og 233 milljónir árið áður. Í síðustu þremur ársreikningum SS er vitnað til betri markaðsaðstæðna og árangursríkra hagræðingaraðgerða, sem er aðeins á skjön við frásögn meirihluta atvinnuveganefndar af ástandinu í greininni.

– Stjörnugrís. Það félag hagnaðist um 39 milljónir árið 2022 og 308 milljónir árið 2021.

Eiginfjárstaða allra þessara smælingja, sem stjórnarmeirihlutinn hefur komið til hjálpar, er ágæt,“ skrifar Ólafur. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí