18% hækkun á lambakjöti á tveim dögum – Hagar skiluðu 5 milljarða hagnaði

Dyggari og athugulari varðhunda neytenda má vart finna þessa dagana annars staðar en í hópnum „Vertu á verði – eftirlit með verðlagi“ á Facebook. Þar ráðfærir fólk sig við hvert annað, ráðleggur og vekur athygli á ýmsum verðhækkunum og okri, sem og hrósi þegar vel er gert, þó það sé auðvitað sjaldan í þessari lífskjarakrísu sem nú geisar.

Í gær vakti einn slíkur dyggur samborgari okkar athygli á svæsinni hækkun í matvöruversluninni Bónus. Verðhækkun á miðlærissneiðum lambakjöts í marineringu hafði hækkað um 18% á tveimur dögum. Á mánudegi tók umræddur borgari mynd af verðinu og þá var það 3398 krónur á kílóið. Á miðvikudeginum var verðið komið í 3998 krónur.

Þetta er auðvitað ekkert nýtt af nálinni, landsmenn eru því miður farnir að búast við því að sjá aldrei sömu verðin á milli búðarferða, því þau breytast svo ört í yfirstandandi lífskjara- og verðbólgukrísu. Þetta er samt gott dæmi um slíka öra og gríðarháa hækkun á stuttum tíma.

Í athugasemdum undir færslunni í hópnum eru aðrir samborgarar grautfúlir yfir þessu enda ærin ástæða til og ýmsar ástæður eru týndar til í leit að skilningi. Einhver ímyndar sér hvort hækkun tolla á kryddi og plasti gæti verið ástæðan, annar segir enga samkeppni vegna einokunarmarkaðar og staða Íslands utan ESB vera málið. Einhver kennir nýjum búvörulögum um, þar sem einokunaráhrifin á markaði landbúnaðaafurða voru styrkt.

Þá bendir einn kíminn á að sjálfsafgreiðslukassarnir hljóti að hafa heimtað hærra kaup. Það er auðvitað skondið að með fækkun starfsfólks og aukinni hagkvæmni sjálfsafgreiðslukassa þá hækki verðin samt.

Eitthvað er sennilega til í því öllu. Það veigamesta sem þó er vert athuga er hver sé eiginlega staða fyritækisins sem rukkar verðið. Bónus eins og margir vita er í eign móðurfélagsins Haga, sem einnig eiga Hagkaup og Olís, fataverslunina Zara, matreiðslufyrirtækið Eldum Rétt, ásamt þremur gríðarstórum innflutnings-, dreifingar- og heildsölufyrirtækjum; Aðföng, Bananar og Stórkaup.

Hagnaður fyrirtækisins Hagar voru tæpir 5 milljarðar á árinu 2023 eða 4949 milljónir króna. Það er ekki einsdæmi því samsteypan hefur skilað gríðarmiklum hagnaði á hverju einasta ári að minnsta kosti aftur til ársins 2019, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu fyrirtækisins. Þá hefur hagnaðurinn vaxið statt og stöðugt og oft tekið stór stökk, eins og árið 2022 þegar hagnaðurinn jókst um 88% á einu ári. Þá hefur hagnaðurinn aldrei verið hærri á þessu tímabili en í fyrra.

Á vefsíðu Haga stendur samt þessi kostulega lýsing á fyrirtækinu:

„Hagar eru fjölskylda fyrirtækja sem að starfa á íslenskum dagvöru-, sérvöru- og eldsneytismarkaði. Öll fyrirtæki Haga hafa það markmið að veita framúrskarandi þjónustu, selja gæða vörur á sanngjörnu verði og hafa um leið eins jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag og mögulegt er.“

Í viðtali við RÚV í apríl 2023 sagði forstjóri Haga, Finnur Oddsson að Bónus væri „kröftug vörn gegn verðbólgu“, fyrirtækið væri ekki að fleyta verðhækkunum birgja að „af fullum þunga út í vöruverð“. Þannig væri það í raun Bónus að þakka „að verðbólga í matvöru á Íslandi er ekki hærri en raun ber vitni“.

Endurtaka skal, á sama ári og þessu kaldhæðnislegu orð voru mælt skilaði Hagar 5 milljarða methagnaði í miðri lífskjarakrísu, enda er verðbólgan knúin að miklu leyti áfram af græðgisbólgu af völdum fyrirtækja sem hafa nýtt sér ástandið til að græða á því. Við skulum samt endilega þakka Bónus fyrir að leika okkur ekki ennþá verr.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí