Fyrr í vikunni greindi verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands frá því að verðlag á matvöru hefði hækkað á síðustu vikum og það með nokkrum rykk. Hækkun milli mánaðanna september og október nam um einu prósenti, en til að setja það í samhengi þá er þetta í fyrsta skipti frá því í mars sem verðlagseftirlitið mælir ekki lækkun verðlags í neinni verslun milli mánaða.
„Það eru kjötvörurnar sem hækkuðu mest. Þær eru svo þungar í körfunni að þær draga upp meðaltalið alveg helling. Það var um fjögur, fimm prósent hækkun frá SS og Goða. Það hefur mikil áhrif. Svo eru aðrir þættir sem eru að sligast upp, eins og grænmeti og súkkulaði,“ segir Benjamín Julian, verkefnastjóri verðlagseftirlits Alþýðusambandsins, í samtali við Rauða borðið sem sýnt verður í kvöld. Hann útilokar ekki samráð milli SS og Goða um verð.
„Ef að um samráð er að ræða þá er engin leið að vita hvernig þetta virkar. Til að stunda samráð er nóg að horfa á verðmiða andstæðingsins. Ég efa það að það sé eitthvað samráð á milli Bónus og Krónunnar, en þetta er einhver leikur sem hefur farið á stað og hefur verið í gangi í mörg ár. Allir vita hvernig þetta virkar,“ segir Benjamin.
Ein verslun sker sig þó frá hinum því hjá Nettó lækkaði verð á mörgum vörum um milli mánaða. „Nettó siglir gegn straumi hækkana í þessum mánuði og er að lækka í mörgum tilvikum.“
Við Rauða borðið í kvöld mun Benjamin segja okkur nánar frá verðhækkunum og öðrum nýjum neytendamálum.