Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, gerir athugasemd við verðhækkanir í upphafi nýs árs. Hann nefnir sem dæmi umtalsverða hækkun fasteignagjalda á Akranesi sem nemi allt að 17 prósentum og ekki sé allt upp talið.
„Í morgun fékk ég sent frá manni yfirlit yfir hækkanir á tryggingum hjá VÍS en þær nema 14 prósent,“ segir Vilhjálmur og tekur fram að engar breytingar hafi orðið á högum mannsins milli ára, tjónlaus í tvö ár.
„Þetta eru hækkanir sem eru langt umfram hækkun neysluvísitölunnar sem var 4,8% og það er ljóst að enn og aftur ætla mörg fyrirtæki ekki að taka þátt í þeirri vegferð sem verkalýðshreyfingin var tilbúin að fara með hófstilltum langtíma kjarasamningi,“ segir Vilhjálmur reiður.
„Þetta framferði fyrirtækja og sveitarfélaga er með öllu óboðlegt enda munum við aldrei ná tökum á verðbólgunni né ná að lækka vexti ef allir ætla ekki axla sína ábyrgð í þeirri vegferð. Eitt er víst að launafólk og heimili þessa lands munu ekki ein geta axlað þá ábyrgð,“ segir Vilhjálmur, sem óttast að forsenduákvæði kjarasamninga kunni að bresta að óbreyttu nema aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins girði sig í brók.
Þá hafa Samstöðinni borist ýmsar ábendingar um vöruhækkanir á almennri neysluvöru.