Ef íbúaþróun á Íslandi hefði verið sú sama og í Lúxemborg á þessari öld byggju hér um 435 þúsund manns, 48 þúsund fleiri en raun ber vitni.
Á þetta bendir Gunnar Smári Egilsson blaðamaður í færslu á facebook. Hann segir að íslensk stjórnvöld hafi mætt fjölgun landsmanna með hrópum og köllum í stað þess að byggja upp húsnæði, innviði og grunnkerfi eins og stjórnvöld í Lúxemborg.
„Ef stjórnvöld í Lúxemborg væru jafn ábyrgðarlaus og heimsk og á Íslandi væri þar 50 þúsund manns á götunni, búandi í tjöldum undir brúm. Skóla- og heilbrigðiskerfi væri hrunið. Fólk þyrfti að bíða í ár eftir tíma hjá heimilislækni,“ segir Gunnar Smári.
Hann segir að vandinn sem nú hafi verið ræddur tengist því ekki fjölgun landsmanna líkt og hefur mátt skilja af útlendingaumræðu stjórnmálastéttarinnar.
„Það er enginn innflytjendavandi á Íslandi. Vandinn er stjórnmálalegur. Þið hafið kosið yfir ykkur ábyrgðarlaust fólks sem kennir svo öðrum um þegar afleiðingar ábyrgðarleysis þess afhjúpast. Þetta er ábyrgðarlaust fólk og siðlaust.“
Gunnar Smári ræðir einnig að innflytjendur hafi bjargað íslensku samfélagi frá því að koðna undan umönnun barna og aldraða. Innfæddir séu of fáir á vinnualdri til að halda uppi velferðarríki. Án innflytjenda myndi velferðarríkið hrynja.
„Samt gasprar fólk á þingi um að innflytjendur grafi undan velferðarsamfélaginu. Hvílík heimska!“
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrum þingkona, bendir í lifandi umræðu um færslu blaðamannsins að nú sé hamast á erlendum minnihlutahópum. Áður hafi öryrkjar verið blóraböggull.
„Áður en fólk leitaði til Íslands í von um skjól þá var öðrum hópi í viðkvæmri stöðu kennt um veika innviði, nefnilega öryrkjum sem áttu að vera hópum saman að svindla á kerfinu og knésetja landið. Nú er það flóttafólkið,“ segir Helga Vala.