Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir verkalýðshreyfinguna þurfa að bregðast við þeirri sérstöku stöðu að verkbanni sé hótað til að knýja verkalýðsfélög til uppgjafar.
„Á þessum tímapunkti kom þetta mér mjög á óvart,“ segir Ragnar Þór í samtali við Samstöðina um útspil SA.
„Mér fannst gangur í viðræðunum, við vorum að þoka málum áfram. Mér finnst þetta útspil SA forkastanlegt og ofsafengið. Tímapunkturinn er mjög sérstakur.“
Að sögn Ragnars Þórs bendir margt til að hægt væri ná samningum ef Flugleiðir væru til í að bæta kjör láglaunafólks sem þarf að mæta tvisvar í vinnu á einni vakt með skertu vinnuhlutfalli. Sumir mæti klukkan 05 að morgni til starfa á Keflavíkurflugvelli og svo aftur síðar um daginn.
Kostnaður við að semja með réttlátum hætti við þennan hóp er að sögn Ragnars Þórs óverulegur, sennilega undir 50 milljónum. Hjá fyrirtæki sem hafi greitt 250 milljónir í kaupaukabónusa til yfirmanna í fyrra sé það engin fjárhæð.
„Það verður að koma á daginn hvort Samtök atvinnulífsins senda tugþúsundir Íslendinga í verkbann með gríðarlegu tekjutapi fyrir allt samfélagið út af svo litlu,“ segir Ragnar Þór og segist telja að fólk skilji baráttu félagsins og hve alvarlegt það er að SA fari þessa leið.
„Það er mikilvægt upp á framtíðina og lífskjör að verja verkfallsréttinn,“ segir hann og ítrekar að aðilar hafi ekki átt langt í land með landa samningum þegar SA setti málin í uppnám. Hann líti svo á sem kjaraviðræður séu enn í gangi.