Segja hóflegar launahækkanir ekki nægja einar og sér

Kjaramál 4. mar 2024

Sem kunnugt er slitu VR og Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) sig frá samstarfi um kjarasamningsgerð í samfloti Breiðfylkingarinnar, sem mynduð var með Starfsgreinasambandinu, Eflingu og Samiðn, í þar síðustu viku. Samninganefndir VR og LÍV mynduðu í kjölfarið sérstaka viðræðunefnd til að halda viðræðum um kjarasamningsgerð við Samtök atvinnulífsins (SA) áfram. Síðan hefur viðræðunefndin fundað stíft.

Að mati viðræðunefndar standa út af mikilvæg atriði sem varða félagsfólk VR og LÍV og verður að leiða til lykta svo hægt sé að ljúka kjarasamningagerð. Við upphaf viðræðna milli breiðfylkingarinnar og SA var rætt um breiða kjarasamninga sem myndu vera í líkingu við þjóðarsátt með það að markmiði að koma böndum á verðbólguna og stuðla að ásættanlegu vaxtastigi. Greindir voru fjórir samhangandi þættir sem gætu náð því markmiði, það er að segja hóflegar launahækkanir, endurreisn stuðningskerfa launafólks í gegnum vaxta- og barnabætur, sterk forsenduákvæði svo endurskoða megi samninga ef markmið þeirra ganga ekki eftir og víðtæk sátt um að koma í veg fyrir verðlagshækkanir. Til viðbótar hefur það verið mat VR og LÍV að ná þurfi tökum á húsnæðismálum og treysta varnir fyrir bæði húsnæðiseigendur og leigjendur.

VR og LÍV féllust á að fara fram með hóflegar kröfur um launahækkanir í þessu samhengi. Af þessum atriðum standa eingöngu hóflegar launahækkanir eftir. Verði það niðurstaðan er ljóst að almennu launafólki verður gert að bera eitt byrðarnar af því að ná verðbólgunni niður, sem það átti ekki þátt í að stofna til. Enn fremur er hætt við að markmiðin náist ekki þar sem atvinnurekendur hafa ekki fallist á að axla ábyrgð á verðhækkunum og hafa skellt skollaeyrum við sjálfsögðum kröfum um sterk forsenduákvæði.

Á vettvangi VR og LÍV eru einnig ýmis sérmál sem ekki hefur gefist færi á að ræða. Má þar nefna atriði sem lúta að starfsmenntamálum og starfsreynslu ungmenna, en einnig samninga varðandi kjör starfsfólks í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli en þar er starfað eftir vinnufyrirkomulagi sem þekkist hvergi annars staðar á íslenskum vinnumarkaði.

VR og LÍV hafa óskað formlega eftir því við ríkissáttasemjara að hann hlutist til um viðræður við SA vegna kjarasamninga félaganna. Það er áríðandi að hefja viðræður þegar í stað um þau atriði sem að framan greinir og ná samstöðu um kjarasamninga til næstu ára.

Félagsfólk LÍV telur ríflega 47 þúsund að VR meðtöldu og er því stærsta samband launafólks á Íslandi.

Fréttin byggir á frétt á heimasíðu VR.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí