Doktor í guðfræði við Háskóla Íslands telur líklegra að Elínborg Sturludóttir eða Guðrún Karls Helgudóttir verði biskup en Guðmundur Karl Brynjarsson, eini karlinn í hópnum sem stendur eftir.
Eins og Samstöðin hefur greint frá verður kosið milli þeirra þriggja og lýkur því ferli í næsta mánuði.
Sigríður Guðmarsdóttir, sem fyrrum þjónaði söfnuðum hér á landi en starfar nú hjá Háskóla Íslands við kennslu og fræðimennsku, skrifar færslu á samfélagsmiðilinn facebook þar sem hún óskar Þjóðkirkjunni til hamingju með tilnefningu kandídata til biskups Íslands.
Hún segir biskupsefnin þrjú hafa fengið 43 prósent þeirra atkvæða sem prestar og djáknar greiddu í kosningunni.
„Það þýðir að atkvæði þeirra sem kusu Ninnu Sif, Bjarna og Helgu Soffíu (alls 30%) munu leggjast á vogarskálar í biskupskosningunni,“ segir Sigríður og vísar þar til þeirra sem fengu mikinn stuðning en höfnuðu ekki meðal þriggja efstu.
„Ég tel að atkvæði Ninnu Sifjar muni skiptast milli Elínborgar og Guðrúnar, Elínborg fái atkvæði þeirra sem kusu Helgu Soffíu og að atkvæði Bjarna muni fara flest á Guðrúnu, en slatti til Guðmundar. Ef það gengur eftir er næstum víst að prestar og djáknar kjósi að meirihluta kvenkyns biskupsefni,“ segir Sigríður.
Í umræðu við innleggið kemur fram að enginn skuli vanmeta mátt atkvæðanna úti á landi. Er nefnt að Elínborg gæti í þeim efnum skorað hærra en hin tvö biskupsefnin vegna tenginga og fyrri starfa úti á landi.
Öll þjóna biskupsefnin þrjú höfuðborgarsvæðinu. Um 3000 manns munu greiða atkvæði í næsta legg kosningarinnar. Þarf meirihluta atkvæða til að nýr biskup standi uppi með pálmann í höndunum. Sem kann að kalla á enn aðra kosningu milli tveggja efstu.