Þótt stórsigur hafi unnist í gærkvöld gegn Ísrael í fótbolta er þjóðin enn þverklofin í afstöðu til þess hvort rétt hafi verið að spila leikinn.
Enn er ósvarað hvers vegna KSÍ leyfði Albert Guðmundssyni, hetju liðsins í gær, ekki að fara í viðtöl við fjölmiðla að leik loknum. Var það vegna einkamáls eða höfðu borist vísbendingar um að öryggi Alberts kynni að vera ógnað?
Viðureignin fór 4-1 eftir að Ísland hafði lent marki undir. Liðið sýndi glæsilega frammistöðu og á þráðum sem studdu sniðgöngu mátti jafnvel lesa að Ísrael hafi fengið makleg málagjöld.
Að spila leikinn var ekki bara íþróttaleg ákvörðun heldur líka pólitísk ákvörðun. Enda var mikil spenna á leikvanginum í Ungverjalandi og öryggisgæsla í hæstu hæðum. Þegar áhangendur Ísrael fóru að baula kerfisbundið á íslensku leikmennina fannst sumum sem veruleikinn stæði á haus.
Þeir sem horfðu á leikinn í sjónvarpinu hér heima og greindu frá því urðu sumir fyrir aðkasti.
FIFA taldi sjálfgefið að banna Rússum að taka þátt í sambærilegum mótum eftir innrásina í Úkraínu. Þykja mörgum voðaverk Ísraela í samtímanum, árásir þeirra á Gaza sem hafa kostað 13.000 börn lífið og alls á fjórða tug mannslífa Palestínumanna, síst skárri en Rússa.
Palestínumenn kröfðust þess síðast í gær að FIFA bannaði Ísraelum að spila leikinn.
Var betra að spila leikinn og vinna Ísrael í gær en að keppa ekki?
Þátttaka Íslands í Evróvisjón er önnur umdeild ákvörðun sem klýfur íslensku þjóðina í herðar niður.
Kannski má kalla það kaldhæðni örlaganna að sigur Íslendinga þýðir að næsta þriðjudag fer aftur fram viðureign milli okkar herlausu eyþjóðar í norðri og mótherja sem staddir eru eru í miðju stríðsátaka. Ísland keppir við Úkraínu. Úrslit leiksins ráða hvort liðið tryggir sér laust sæti á EM.