„Þetta er óvenju snöggt viðbragð,“ segir Hjálmtýr Heiðdal, formaður félagsins Ísland-Palestína um viðbrögð Menntaskólans á Laugarvatni við hatursummælum kennara. „Þessi ummæli kennarans varða lög um hatursumræðu.“
Fram hefur komið að kennaranum, Helga Helgasyni, var ekki sagt upp heldur náðist samkomulag um að hann hætti kennslu við skólann. Hann er kominn í leyfi og verður svo gengið frá starfslokum. Nemendur hans eru sagðir í uppnámi vegna ummæla hans. Hann ræddi meðal annars keppanda í Evróvisjón sem „illa skeindan araba“.
Hjálmtýr kannast vel við að rasismi sé orðinn sýnilegri síðustu daga. Erfitt sá að meta hvort rasismi sé að aukast. Hann kraumi nú ekki lengur dulinn undir niðri sem sé bæði gott og vont.
Formaður félagsins Ísland-Palestína segir að ummæli Helga hafi verið með því grófara sem hann hafi séð. Margir virðist líta svo á sem þeir hafi verið hvattir til dáða af ráðandi öflum, mönnum eins og Bjarna Benediktssyni sem hafi fært mörkin um útlendingaandúð til. Hvað sé í lagi að segja og hvað sé ekki í lagi að segja.
Áður hefur verið tekist á um það fyrir dómstólum hve ríkan rétt kennarar hafa til tjáningafrelsis. Þannig missti grunnskólakennarinn Snorri í Betel kennarastarf við grunnskóla á Akureyri vegna ummæla og skoðana. Snorri lögsótti bæinn og vann málið.
„Snorri var í sjónvarpinu nú síðast fyrir nokkrum dögum að breiða út óhugnaðaráróður um Palestínumenn og afhausuð börn. Hann virðist því ekkert hafa lært,“ segir Hjálmtýr.