Öryggisgæsla verður ívið meiri en gengur og gerist innan veggja Alþingis síðdegis í dag. Þá flytur Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, vantrauststillögu á ríkisstjórnina.
Píratar og Flokkur fólksins standa saman að tillögunni. Sagði Inga Sæland í sjónvarpsumræðu á Samstöðinni í gær að hún vænti þess að aðrir stjórnarandstöðuþingmenn greiddu atkvæði með tillögunni og myndu styðja vantraust. Inga hvetur almenning til að hópast á þingpalla og fylgjast með umræðunni.
Framíköll urðu á þingpöllum í síðustu viku. Afskipti voru höfð af manneskju þegar Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir breytingum á útlendingalögum fyrir nokkrum vikum.
Þegar Samstöðin hefur fengið ráðherra í viðtöl síðustu vikur í myndveri hafa lífverðir fylgt sumum þeirra.
Sérsveitin fylgdi rútu þingmanna Sjálfstæðisflokksins úti á landi fyrir nokkum vikum.
Ekki hefur verið upplýst um hvort eða hvers konar hótanir hafa borist en álykta má að kostnaður ríkisins vegna öryggisgæslu hafi aukist síðustu mánuði. Herma sumar heimildir að rótina megi finna í svokölluðu glimmermáli.
Sömu heimildir herma að í dag verði reynt að koma í veg fyrir truflun eða óvæntar uppákomur á Alþingi með meiri öryggisgæslu en gengur og gerist.
Ein ástæða vantrauststillögunnar er að aðstandendur vilja að því verði haldið til haga til framtíðar og fyrir næstu kosningar, hvaða þingmenn styðji ríkisstjórnina áfram til starfa í ljósi veiks umboðs stjórnar. Ekki síst veikrar stöðu verkstjórans, Bjarna Benediktssonar.
Á fimmta tug þúsunda Íslendinga hafa mótmælt Bjarna á island.is.