Baldur Þórhallson mælist með mest fylgi forsetaframbjóðenda í nýrri skoðanakönnun Prósents sem Morgunblaðið lét gera. Fast á hæla honum kemur Katrín Jakobsdóttir en ekki er marktækur munur á fylgi þeirra tveggja.
Samkvæmt könnuninni mælist Baldur með 25,8% fylgi en Katrín með 22,1% fylgi. Þar munur 3,7 prósentustigum en vikmörk eru það mikil að munurinn á frambjóðendunum tveimur er ekki tölfræðilega marktækur.
Jón Gnarr er þriðji samkvæmt könnuninn og mælist með 16,8% stuðning, og er tölfræðilega marktækur munur á fylgi hans og þeirra Baldurs og Katrínar. Í fjórða sæti er Halla Hrund Logadóttir með 10,6% fylgi. Aðrir frambjóðendur fá innan við 5% fylgi og þar af eru fimm með innan við 1%. Þeir sem hæst skora þar eru Halla Tómasdóttir, sem mælist með 4,3% fylgi, og þau Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Arnar Þór Jónsson sem bæði mælast með 2,9% fylgi.
Í könnuninni var spurt um þá sem lýst hafa yfir framboði með skýrum hætti. Framboðsfrestur rennur út 26. apríl næstkomandi. Niðurstöðurnar eru ekki víðs fjarri fyrri könnunum sem birtar hafa verið, gerðum af mismundandi kannanafyrirtækjum, en Baldur og Katrín hafa nú haft sætaskipti, þó ítreka þurfi að ekki er marktækur munur á þeim tveimur.
Könnunin var framkvæmd 9.-14. apríl. Um netkönnun meðal könnunarhóps Prósents var að ræða. Úrtakið var 2.300 manns og svarhlutfall 51,2 prósent. Forsetakosningar fara fram 1. júní næstkomandi.