Bjarni Benediktsson leggur niður ráðherranefndir um áherslumál VG

Síðastliðinn þriðjudag samþykkti ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar á fundi sínum nýja skipan ráðherranefnda, sem eru nefndir um málefni sem leggja þarf áherslu á fleiru en einu ráðuneyti. Samþykkti ríkisstjórnin að leggja þrjár slíkar nefndir niður og færa málefnin til ráðherranefndar um samræmingu mála. Allar voru nefndirnar sem slegnar voru af um málefni sem í sögulegu samhengi hafa verið áherslumál Vinstri grænna, og höfðu verið settar á laggirnar á vakt Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. 

Um er að ræða ráherranefndir um íslenska tungu, um jafnréttismál og um málefni innflytjenda og flóttafólks. Ekki er óvarlegt að halda því fram að með niðurlagningu nefndanna sé Bjarni Benediktsson farinn að setja mark sitt á forsætisráðherraembættið og skipta um kúrs frá því sem var undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Málefnanefndirnar þrjár voru allar um málefni sem Katrín og Vinstri græn lögðu sérstaka áherslu á. Með því að afleggja þær og steypa málaflokkunum inn í allherjarnefnd um samræmingu mála milli ráðuneyta, þar sem vitanlega eru fleiri mál undir, má halda því fram að málaflokkarnir þrír munu hljóta minni athygli og lögð verði á þá minni áhersla en í það minnsta Vinstri græn hefðu viljað, innan ríkisstjórnarsamstarfsins.

Allt áherslumál í stjórnarsáttmála

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem samþykktur var við myndun hennar í nóvember 2021, fá allir þessir málaflokkar sitt pláss, vitanlega auk fjölmargra annarra. Í sáttmálanum segir þannig að „[í]slensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverf okkar“.

Um jafnréttismál segir í stjórnarsáttmálanum að jafnrétti kynjanna sé mikilvægur þáttur í heilbrigðu samfélagi „og verður áfram forgangsmál sem og auknar réttarbætur í málefnum hinsegin fólks. Auk aðgerða á vinnumarkaði til að draga úr kynbundnum launamun verða jafnréttismál ávallt í forgrunni við ákvarðanatöku“.

Þá segir um málefni innflytjenda og flóttafólk að þátttak fólks af erlendum uppruna auki fjölbreytni, „eflir íslenskt samfélag og menningu og er ein forsenda fyrir vexti efnahagslífsins. Tryggja þarf að innfytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfleika sína, þekkingu og reynslu. Styðja verður sérstaklega við börn af erlendum uppruna í skólakerfnu. Í samræmi við fóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna á Ísland á að taka vel á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru í hættu og eiga rétt á að komast í skjól“. 

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er enn í gildi, enda var ekki lagður fram nýr slíkur þegar að Katrín vék úr stóli forsætisráðherra og Bjarni tók við. 

Lítið heyrst frá Vinstri grænum

Sem fyrr segir eru umræddir málaflokkar allt málaflokkar sem ríkisstjórnarflokkurinn Vinstri græn leggur áherslu á, bæði í sögulegu samhengi, í kosningaáherslum sínum og í ríkisstjórnarsamstarfinu. Þá sýndi Katrín Jakobsdóttir stöðu íslenskunnar sérstakan áhuga í embætti forsætisráðherra. Þó hægt sé að deila um árangur Vinstri grænna við að koma málum er snúa að þessum málaflokkum í ásættanlegt horf miðað við stefnu flokksins, er þetta engu að síður tilfellið. Hins vegar virðist sem ráðherrar flokksins hafi ekki maldað grimmt í móinn þegar Bjarni bar fram tillöguna um nýja skipan nefndanna, í það minnsta var hún samþykkt í ríkisstjórninni. Ekki hafa heyrst andmæli á opinberum vettvangi heldur frá grasrót flokksins.

Bjarni og Eiríkur þræta um íslenskuna

Raunar hefur lítið verið fjallað um niðurlagningu nefndanna, nema nefndar um íslenska tungu. Um niðurlagningu hennar hafa Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra þrætt inni á Facebook-síðu þess fyrrnefnda, Málspjalli. 

Segir Eiríkur að niðurlagning nefndarinnar sé „dapurlegur vitnisburður um áhugaleysi og getuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum íslenskunnar“. Bætir Eiríkur því við að málefni íslenskunnar séu brýnni en nokkru sinni fyrr og bætist niðurlagning ráðherranefndarinnar „ofan á það áhugaleysi og getuleysi sem birtist með skýrum hætti í fjármálaáætlun næstu fimm ára“.

Þessu svarar Bjarni með því að verið sé að draga miklar ályktanir af litlu tilefni. „Það er nú orðið illvirki og vitnisburður um getuleysi og áhugaleysi á íslenskri tungu að ætla að ræða málið í ráðherranefnd um samræmingu mála frekar en ráðherranefnd um málefni íslenska tungu. Er ekki hægt að færa umræðu um þetta málefni upp á aðeins hærra plan?“ Þessu svarar Eiríkur með því að hann hafi ekki talað um illvirki, heldur sé ljóst að eðlilegt sé að túlka niðurlagningu ráðherranefndarinnar á þann hátt að verið sé að draga úr áherslu á mikilvægi málefna íslenskrar tungu. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí