Nú ríflega sólarhring eftir að Bjarni Benediktsson tók við sem forsætisráðherra hafa um ríflega 25 þúsund manns skrifað undir yfirlýsingu gegn honum á Ísland.is. Það er vafalaust Íslandsmet í hraða í söfnun á undirskriftum.
Til að setja þann fjölda í samhengi er gott að rifja upp að nokkru leyti sambærilega undirskriftarsöfnun gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni árið 2016. Sú söfnun hófst eftir að hann var gómaður í Panamaskjölunum og strunsaði út úr einu pínlegasta viðtali sem sést hefur hér á landi. Þar til nú var sú söfnun sú fjölmennasta sem segja má að hafi beinst að einstaklingi en ekki samfélagslegu vandamáli.
Wintris-viðtalið var sýnt 3. apríl en tæpum tveimur vikum síðar höfðu samtals safnast 30.300 undirskriftir þar sem afsagnar hans var krafist. Þá hafði hann þó löngu sagt af sér, gerði það tveimur dögum eftir viðtalið, þann 5. apríl.
Það stefnir í að Bjarni nái þeim fjölda á morgun. Til samanburðar þá greindi Vísir frá því árið 2016 að undirskriftasöfnunin gegn Sigmundi Davíð hefði safnað 3.112 undirskriftum fyrsta sólarhringinn. Það er því nokkuð ljóst að Bjarni mun slá met Sigmundar í óvinsældum, á mettíma, þrátt fyrir að Sigmundur var vafalaust í talsvert verri stöðu þá en Bjarni er í dag. Það má rifja upp með því að horfa á myndbandið hér fyrir neðan.
Hér má svo finna undirskriftarsöfnunina gegn Bjarna.