Ljóst er að framboð Katrínar Jakobsdóttur til forseta er langt í frá óumdeilt.
Listamenn eru meðal þeirra sem sett hafa spurningarmerki við dómgreind ráðherrans. Hefur Benedikt Erlingsson leikari nú bæst í hópinn með hvassri færslu á facebook þar sem hann setur á svið ímyndað samtal milli sín og sálfræðings:
Hann segist fá ónotatilfinningu við tilhugsunina um að sitjandi forsætisráðherra bjóði sig fram til forseta.
„Sko…ef maður á að bera saman þessi tvö embætti þá er það ótvírætt að sá sem vill þjóna landi og þjóð og gera gagn er í miklu betri stöðu til þess sem forsætisráðherra heldur en forseti,“ segir hann:
„Því ef þú vilt raunverulega láta gott af þér leiða í gegnum pólitík og færa þær miklu fórnir sem það kostar, þá ertu í betri stöðu til þess sem handahafi framkvæmdavaldsins með marga putta í löggjafarvaldinu heldur en þjóðkjörinn, táknrænn menningarprestur með málskotsrétt.“
„Sálgreinir: Já, og afhverju ertu að segja mér þetta? Hvað meinarðu?“
Benedikt: „Sko…Af hverju ætti auðmjúk og þjónandi manneskja eins og Kata Jak að vilja segja af sér sem forsætisráðherra, slíta ríkisstjórn og hverfa frá hálfkláruðu verki, yfirgefa félaga sína í miðjum slagnum fyrir þessi bítti? Ganga af engjum í miðjum slætti til að halda skálaræður í veislusölum.“
„Og hverjir eru það sem hvísla því í eyru stjórnmálamanns að nú sé mál að hætta að láta verkin tala og stíga heldur uppí predikunarstól og reyna þaðan að hafa áhrif á fólk með tali, brosi og ræðuhöldum. Hvaða sæmilega jarðtengdi stjórnmálamaður gefur eyra slíkum ráðum?“
Benedikt víkur einnig að hégóma Katrínar.
Talið er að forsætisráðherra tilkynni um framboð sitt að loknum ríkisstjórnarfundi eftir skamma stund.