Ólafur Sveinsson náttúruunnandi hefur sent framkvæmdastjóra Landverndar opið bréf þar sem hann gagnrýninir Björgu Evu Erlendsdóttur vegna opinbers stuðnings við forsetaframboð Katrínar Jakobsdóttur.
Bréf Ólafs er ítarlegt. Hann segir að með fullri virðingu fyrir Björgu Evu og hennar störfum sem öflugrar baráttukonu fyrir náttúruvernd sé hún að gera slæm mistök með yfirlýsingum um stuðning við framboð Katrínar.
„Ekki nóg með það, heldur styður þú framboðið líka með ráði og dáð. Þér er það auðvitað í sjálfsvald sett sem einstaklingi sem að hefur unnið náið með henni sem framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá 2016 – 2023, þekkt hana enn lengur af góðu einu og ert sannfærð um að hún geti orðið frábær forseti, en það samræmist enganvegin starfi þínu sem framkvæmdastjóri Landverndar að mínum dómi og það sem verra er, þá dregur það mjög úr trúverðugleika samtakanna,“ skrifar Ólafur í bréfi sínu.
„Ég þori að fullyrða að enginn flokkur og engin stjórn hafi valdið náttúruverndarsinnum jafn miklum vonbrigðum og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænir undir hennar forystu. Það kann að vera að náttúruverndarsinnar hafi haft uppi of miklar væntingar til flokksins og ríkisstjórnarinnar og séu ekki reiðubúnir að kyngja þeim málamiðlunum sem gera verður í samsteypurstjórnum og að ástandið væri enn verra ef Katrín hefði ekki haldið á stjórnartaumunum – eins og forysta og þingmenn VG hafa haldið fram. En það skiptir ekki máli – vonbrigðin og reiðin yfir svikunum, að því er mörgum finnst, eru til staðar og það er ekki hægt að firra Katrínu ábyrgð á þeim. Þannig virðist t.a.m. fátt geta komið í veg fyrir Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár verði reist, sem að þú hefur m.a. barist gegn.“
Þá nefnir Ólafur að auk virkjanamála svíði umhverfisverndarsinnum hvað mest undan klúðrinu í laxeldinu, þar sem ráðherrar VG, sem hafi að stórum hluta haft málið á sinni könnu á undanförnum árum, hafa staðið sig illa.
„Og þó tók steininn úr þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýskipaður matvælaráðherra, lagði formlega fram frumvarp breytingar á „lagareldi“ þar sem norskum stórfyrirtækjum virðist vera úthlutaður réttur til að hafa laxeldi í opnum sjókvíum í íslenskum fjörðum um aldur og ævi, nánast ókeypis. Þetta frumvarp, sem unnið var undir stjórn Svandísar Svavarsdóttur, fyrrum matvælaráðherra og nánasta samstarfsmanns Katrínar Jakobsdóttur, var lagt inn til þingsins 27. mars síðastliðinn af Katrínu Jakobsdóttur þáverandi forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra í fjarveru Svandísar, sem var í veikindaleyfi. Breytingar sem hafa að sögn verið gerðar á drögum að upphaflegu frumvarpi, sem var skárra en enganvegin gott, flokkast væntanlega undir „nauðsynlega málamiðlun“.“
Ólafur vísar til þrumuræðu Katrínar Oddsdóttur lögfræðings í þættinum Synir Egils á Samstöðinni um síðustu helgi og vísar einnig til viðtals Björns Þorláks sjónvarpsmanns við Björgu Evu á Samstöðinni síðastliðinn mánudag.
„Þú varst síðan fengin á mánudaginn að Rauða borðinu, sem framkvæmdastjóri Landverndar til að ræða laxeldið og stjórnsýsluna sérstaklega og tókst ágætlega til, að öðru leyti en því að ég átti mjög erfitt með að taka mark á því sem þú sagðir vegna þess að undanfarin sjö ár, þar sem laxeldið hefur algerlega farið úr böndunum, var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og ráðherrar VG höfðu umsjón með málaflokknum að drjúgu leiti.“
„Mér sýnist og ég hef sagt það áður að mér finnst ríkisstjórnin nokkuð lengi og í vaxandi mæli vera ríkisstjórn atvinnulífsins, jafnvel ríkisstjórn stórfyrirtækja, sem er enn verra. Og það bara eru rosalega litlar varnir.“ Sagðir þú meðal annars í þessu viðtali og ég geri ráð fyrir að þú hafir ekki síst sótt um framkvæmdastjórastöðu Landverndar og hætt sem framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vegna þess að þú hafir umfram allt verið ósátt við framgöngu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum, en trúlega líka mannréttindamálum eins og margir fyrrverandi stuðningsmenn VG. En með því að styðja framboð Katrínar til forseta ertu að mínum dómi og mjög margra annara, sem að er umhverfisvernd hugfólgin, og hafa barist fyrir henni, að styðja framgang ríkisstjórnarinnar og Vinstri grænna í þeim málum. Og það sem framkvæmdastjóri Landverndar! Með því sért þú í raun að vinna gegn hagsmunum Landverndar og umhverfisverndar og þar með vilja stórs hluta félagsmanna samtakanna.“