Vantrauststillaga Flokks fólksins og Pírata var ekki lögð fram til að fella ríkisstjórnina heldur til að skrásetja og gera kjósendum ljóst að stjórnarþingmenn treystu Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra, þrátt fyrir fjölda mála sem gætu hafa gefið tilefni til annars. Þetta segir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata í grein í Morgunblaðinu í dag.
Í annarri grein í sama blaði skrifar Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hins vegar að tillagan hafi eingöngu verið sett fram til að „efna til málfundaæfingar í þingsal“ og til að koma flokkunum tveimur í fjölmiðla. Nálgast þurfi vantrauststillögur af ábyrgð og hvorugur flokkanna, Píratar eða Flokkur fólksins, hafi risið undir þeirri ábyrgð í síðustu viku.
Í grein Björns Leví rekur hann að pólitískum spekúlöntum hafi fundist vantrauststillagan „voðalega hallærisleg“ þar sem augljóst væri að hún yrði felld. Það segir Björn að sé svo sem skiljanlegt þar eð umræddir spekúlantar spái bara í gamaldags pólitík klækjabragða og útúrsnúninga.
Tilgangurinn með því að leggja vantraustið fram hafi ekki verið að reyna að láta einhverja stjórnarþingmenn standa við stóru orðin sem þeir hafi haft uppi varðandi embættisverk Svandísar Svavarsdóttur þegar hún sat á stóli matvælaráðherra. Það hafi þvert á móti verið lagt fram til að fá stjórnarþingmenn til að staðfesta að þau treysti Bjarna forsætisráðherra.
Vantraustið hafi verið lagt fram í samhengi við undirskriftarlista þar sem 42 þúsund manns lýstu því að þau vantreystu Bjarna. „Vantrauststillagan var því lögð fram sem tækifæri fyrir stjórnarþingmenn til að horfa í augun á kjósendum og segja, svo ég túlki þetta frjálslega: „Okkur er alveg sama hversu mörgum undirskriftum þið safnið, við treystum okkur sjálfum til góðra verka sama hvað þið segið. Við treystum Bjarna Benediktssyni svo mikið að við veljum hann sem forsætisráðherrann okkar.““
Björn Leví segir að þetta hafi þurft að færa í til bókar í skjöl þingsins, þar sem hægt sé að finna það til allrar framtíðar. Að stjórnarþingmenn treysti Bjarna, „[f]jármálaráðherra sem var að segja af sér vegna hagsmunaárekstra þegar hann seldi föður sínum hlut í ríkisbanka í lokuðu útboði og utanríkisráðherra sem réð fyrrverandi aðstoðarmann sinn til fjölmargra ára í stærsta embætti utanríkisþjónustunnar. Og það eru bara verk undanfarinna mánaða. Listi spillingarmála fyrri ára er mjög langur.“
Ekki megi nálgast vantraust með “pólitískri léttúð”
Hvað sem líður þessum útskýringum Björns Leví er Óli Björn áttavilltur að eigin sögn um hvaða tilgangi umrædd vantrauststillaga átti að þjóna. Hvort hann átti sig betur á því eftir að hafa lesið blað dagsins verður ekki fullyrt um. Í það minnsta skrifar Óli Björn í sinni grein að hann eigi erfitt með að átta sig á tilgangnum og vísar til þess að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og fyrsti flutningsmaður tillögunnar, hafi lýst því í framsögu sinni að hún vissi að vantrauststillagan myndi ekki ná fram að ganga.
Markmiðið hafi því ekki verið, skrifar Óli Björn, að fella stjórnina, og þar eru þeir kollegar hann og Björn Leví greinilega sammála. Hins vegar greinir þá um hver raunverulegur tilgangur hafi þá verið, því Óli Björn skrifar sem fyrr segir að tilgangurinn virðist hafa verið sá að gefa þingmönnum flokkanna tveggja sem að tillögunni stóðu tækifæri til að skamma sitjandi ríkisstjórn og stjórnir fyrri ára í þingsal, sem og að ná fjölmiðlaathygli.
Óli Björn skrifar enn fremur að áhugavert sé að sjá að aðrir stjórnarandstöðuflokkar hafi ekki lagt nafn sitt við tillöguna, þó þeir hafi illa getað gert annað en að greiða atkvæði með henni. Segir Óli Björn að rétturinn til að leggja fram vantrauststillögur á ríkisstjórnir eða ráðherra sé ótvíræður og mikilvægur, en hann beri að nýta varlega, „án pólitískrar léttúðar eða til stigasöfnunar í dægurþrasi stjórnmála. Stjórnarandstaðan í öllum löndum veit að hún hefur skyldur til að sýna ábyrgð. Það eru og á að gera kröfur til hennar með sama hætti og gerðar eru kröfur til ríkisstjórnar. Hvorki Flokkur fólksins né Píratar risu undir þessum kröfum í liðinni viku.“