Nærri lá að Guðrún Karls Helgudóttir hlyti bindandi kosningu sem næsti biskup þjóðarinnar.
Þjóðkirkjan hefur upplýst að Guðrún fékk 46 prósent atkvæða en hefði þurft meirihluta til að um bindandi kosningu væri að ræða. Þrjú voru í kjöri, Guðmundar Karl Brynjarsson sem fékk næstflest atkvæði, fékk ríf 28 prósent en Elínborg Sturludóttir 25.5 prósent.
Næst verður því kosið milli Guðrúnar og Guðmundar Karls.
Prestar sem Samstöðin hefur rætt við um niðurstöður kjörsins nefna að bakland Guðrúnar sem auk þess að þjóna sem prestur hefur langa reynslu af kennslustörfum við guðfræðideild HÍ hafi orðið henni akkur. Hún hafi einnig góðar tengingar og komi vel fyrir.
Seinni umferð kosninganna hefst fimmtudaginn 2. maí og stendur í fimm daga. Meðlimir sóknarnefnda út um allt land eru stór hluti kjósenda en um þrír af hverjum fjórum sem höfðu kosningarétt nýttu sér hann í kosningunni.
Biskupsefnin tvö þjóna bæði sem prestar í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.
Samstöðin ræddi við biskupsefnin þrjú síðasta sunnudag.