Borgaryfirvöld í höfuðborg Belgíu fyrirskipuðu í gær lögreglu í borginni að stöðva samkomu hægri popúlískra þjóðernissinna sem þar fór fram. Meðal helstu ræðumanna á samkomu „íhaldssamra þjóðernissinna“ voru popúlistar á borð við Nigel Farage, fyrrverandi formnn UKIP flokksins breska, Suella Braverman, fyrrverandi innanríkisráðherra Bretlands, og Viktor Orbán, forsætisráðherrra Ungverjalands, en til stóð að hann héldi ræðu sína í dag.
Farage hélt ræðu sínu og eftir honum fylgdi Braverman, þrátt fyrir að lögregla væri þá komin á staðinn til að upplýsa fundargesti um að samkoman væri ólögleg. Lögreglan ruddi þó ekki salinn en kom í veg fyrir að nýjir fundargestir kæmu inn.
Farage var hinn reiðasti þegar hann lauk ræðu sinni og líkti aðgerðunum við kommúnisma. „Þetta er agljörlega gamli kommúníski stíllinn, ef þú ert ekki sammála mér þá verður að banna þig, þagga niður í þér,“ sagði þessi í eina tíð helsti talsmaður Brexit.
Emir Kir, borgarstjóri Saint-Josse hverfisins í Brussel, en þar fór samkoman fram, sagði á Facebook að hann hefði ákveðið að banna samkomuna til að tryggja almannafrið en mótmælendur höfðu lýst því að þeir hyggðust mótmæla samkomunni. Kir sagði enn fremur að öfga-hægrimenn væru „ekki velkomnir“ í borginni.
Belgíski forsætisráðherrann, Alexander De Croo, er hins vegar ekki sáttur við ákvörðunina og sagði hana „óásættanlega“ í færslu á X. Belgíska stjórnarskráin tryggði málfrelsi og bann við pólitískum fundahöldum væri brot gegn stjórnskránni. Viktor Orbán sagði að borgaryfirvöld í Brussel þyldu greinilega ekki lengur málfrelsi.
Einhver hundruð fundargesta höfðu mætt á fundinn til að hlýða á ræður með yfirskrift á borð við „Hvers vegna ættum við frekar að velja okkar eigin menningu umfram aðra?“; og „Að skora voke-ismann á hólm: Alþjóðlegt viðfangsefni“. Þrátt fyrir ringulreiðina sem ríkti eftir að lögregla mætti á svæðið héldu framsögumenn áfram að troðast upp í pontu til að láta reiði sinni rigna yfir hefðbundin strámanna-mál hægri popúlista, svo sem réttindi transfólks, fjölmenningu og ESB-ofurríkið.
Skipuleggjendur fundarins höfðu í örvæntingu leitað að sal til að halda fundinn síðan síðastliðinn föstudag, eftir að fyrri fundarsalur hafði verið afbókaður af rekstraraðilum. Sagt er að pólitískur þrýstingur hafi ráðið þar mestu um.
And-fasískir mótmælendur höfðu skipulagt mótmæli við fundarstaðinn. „Málfrelsi gildir sannarlega fyrir alla, innan marka laganna, en það þýðir ekki að við neyðumst til að hleypa öfga-hægrinu inn til okkar,“ sagði í yfirlýsingu mótmælenda.