Segir Matvælastofnun brjóta gegn dýrum 

Þrátt fyrir að alvarleg vanræksla og vanhöld sauðfjár á bænum Höfða í Þverárhlíð í Borgarfirði hafi ítrekað verið tilkynnt til Matvælastofnunar yfir árs tímabil verður ekki séð að stofnunin hafi brugðist við þeim ábendingum. „Það er mjög alvarlegt mál að MAST bjargi ekki þessum skepnum og í raun er það vanræksla á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar.“

Þetta skrifar Anna Berg Samúelsdóttir, landfræðingur og verkefnastjóri hjá Matís, í aðsendri grein á Vísi. Í greininni segir að öll sem láti sig varða málefni dýravelferðar hafi endurtekið séð ábendingar um alvarleg vanhöld á skepnum á bænum Höfða. Anna fer ekki með fleipur þar, þannig hefur ítrekað verið fjallað um vanrækslu í búfjárhaldi á bænum í fjölmiðlum og sömuleiðis hefur baráttufólk fyrir dýravelferð verið óþreytandi í að benda á alvarlega stöðu mála þar. 

Myndir sem birtar hafa verið af fé á Höfða hafa sýnt skinhoraðar skepnur, í sumum tilfellum í mörgum reifum og augljóst að þær hafa ekki verið rúnar um langt skeið. Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) sendi í síðustu viku erindi bæði á MAST og sveitarfélagið Borgarbyggð þar sem enn á ný var bent á alvarleg brot gegn dýraverndarlögum á bænum. Í bréfi DÍS til MAST var á það bent að í skýrslu Ríkisendurskoðun um eftirlit MAST með velferð búfjár kæmi fram að málsmeðferð stofnunarinnar hefði tilhneigingu til að dragast um of þegar frávik væru síendurtekin eða að MAST telji dýr ekki vera í neyð. „Stjórnsýsluleg meðferð sé í einhverjum tilvikum svo varfærin að hún gangi gegn markmiðum laga um velferð dýra.“ 

Í grein sinni skrifar Anna að sem almennur borgari á Íslandi líti hún það alvarlegum augum að MAST, sem sé eina bjargræði dýra, brjóti „svo alvarlega á rétti þeirra til þess að lifa lífi án þjáningar, hungurs og þorsta.“

Ekki verði annað séð en að það búfjárhald sem eigi sér stað á Höfði sé í ósamræmi við lög um velferð dýra, skrifar Anna. „Það er því með nokkrum ólíkindum að verða vitni af því fálæti sem slíkur búskapur fær og það á kostnað þeirra dýra sem við slíkt búa. Er ekki komin tími til þess að Matvælaráðuneytið sjái til þess að tekið sé á þeim alvarlega vanda sem MAST á við að stríða þegar um alvarlega vanhöld dýra er við að etja. Því augljóst er á fyrrgreindu að Matvælastofnun er í miklum vandræðum þegar kemur að því að bjarga dýrum í neyð.

Dýr eiga ekki að þjást á meðan mál eru í „ferli“, dýr eiga ávallt að njóta vafans. Það er afmennska að bjarga ekki dýrum í neyð.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí