Heimsmarkaðsverð á matvælum hækkaði í mars eftir að hafa lækkað í sjö mánuði samfleytt. Hækkunin er knúin áfram af hækkunum á jurtaolíu, kjöti og mjólkurafurðum, að því er sést á nýjasta verðvísitölulista Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO).
Vísitala FAO hækkaði upp í 118,3 punkta í mars, úr 117 punktum í febrúar. Vísitalan í febrúar var sú lægsta síðan í febrúar árið 2021, og var febrúar síðstliðinn sjöundi mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkaði.
Heimsmarkaðsverð á matvælum hefur fallið harkalega frá því í mars 2022, þegar það rauk upp í upphafi innrásar Rússa í Úkraínu. Hvoru tveggja löndin eru stórir útflytjendur korns og annarra landbúnaðaafurða.
Hækkunin í síðasta mánuði var mest þegar kemur að jurtaolíu, um átta prósent milli mánaða, og hækkuðu allar tegundir jurtaolíu þá.
Vísitalan fyrir mjólkurafurðir hækkaði um 2,9 prósent, einkum vegna hækkunar á verði á ostum og smjöri. VErð á mjólkurafurðum hefur farið hækkandi síðasta hálfa árið. Kjötverðs vísitalan hækkaði um 1,7 prósent, vegna hærra verðs á fugla-, svína- og nautakjöti.
Aftur á móti hélt verð á korni og sykri áfram að falla í mars, um 2,6 og 5,4 prósent frá fyrri mánuði. Hveiti hélt áfram að lækka vegna aukins framboðs og þess að Kínverjar féllu frá stórum kaupu. Sykur hækkaði vegna væntrar aukinnar framleiðslu í Indlandi og aukins framleiðsluhraða í Tælandi. Maís hækkaði hins vegar lítillega í verði, einkum vegna erfiðleika við útflutning frá Úkraínu.