„Fiji valtar yfir alla og er komið í úrslitaleikinn í 7 manna rúbbíinu. Allar líkur á Ólympíugulli þriðju leikana í röð. Það er ekki dónalegt fyrir þjóð með milljón íbúa.“
Þetta skrifaði Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, í gær en óhætt er að segja að hann hafi verið full fljótur að fagna sigri Fiji, því það voru Frakkar sem enduðu á því að hreppa gullið í rúbbí í þetta skiptið. Smáþjóðin Fiji hlaut þó silfur. Ljóst er að þessi niðurstaða var nokkur vonbrigði fyrir Stefán, enda skrifar hann í nótt:
„Ég horfi alltaf á Ólympíuleika út frá prinsipinu um að styðja fátækari þjóðir gegn þeim ríkari, fjarlægari samfélög gegn þeim vestrænu og að þefa uppi sigurstranglega keppendur frá löndum sem hafa sjaldan eða aldrei unnið til verðlauna á ÓL. Þetta gerir það að verkum að 95% af Ólympíuleikaupplifun minni eru vonbrigði, þar sem Bandaríkjamenn, Kínverjar eða Vestur-Evrópulönd sanka að sér verðlaunum – en þá sjaldan sem veðmálið gengur upp er það þeim mun sætara.“