„Hera virðist ætla að halda sig við að vera versti keppandinn sem við hefðum getað sent í þessum aðstæðum. Sérstaklega sorglegt þar sem hún er eða var alla vega velgjörðarsendiherra SOS Barnaþorpanna á Íslandi,“ segir Svala Jónsdóttir kennari í ummælum við færslu Illuga Jökulssonar sem deilir á facebook erlendri frétt á eurovisionfun.com um keppanda okkar Íslendinga í Evróvisjón.
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram í næsta mánuði. Ein úr íslensku áhöfninni hefur sagt sig frá keppninni af pólitískum ástæðum. Umdeilt er að Ísland taki þátt vegna yfirstandandi þjóðarmorðs Ísraela á Palestínumönnum.
Hera Björk Þórhallsdóttir sem bar sigur úr býtum í forkeppninni hefur þurft að verja þá ákvörðun að halda þátttöku sinni til streitu eftir að ljóst varð að Ísrael fengi að taka þátt í keppninni. Margir voru þeirrar skoðunar að framlag Palestínumanns sem lenti í öðru sæti hefði betur verið valið. Þá hefði Ísland sent út skilaboð í nafni mannúðar.
Hera segist í viðtalinu dá eigið lag. Hún elskar líka framlag Ísraels í keppninni að því er fram kemur. Hún segist tala fyrir mikilvægi fjölbreyttra skoðana. Hún þakkar Ísraelum stuðninginn og segist vonast til að Ísraelsmenn séu öruggir. Þau ummæli hafa vakið úlfúð á samfélagsmiðlum innanlands þar sem margir bera forréttindi Ísraela saman við ömurlegt hlutskipti Palestínufólks sem er að deyja úr hungri ofan á sprengjuárásir.
Sjá hér: https://youtu.be/qTPDal_V6RY