Á opnum fundi sem haldinn var til að fjalla um málefni Menningartengsla Íslands og Rússlands (MÍR) síðastliðinn fimmtudag var ræddur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur. Upphaf þessa dómsmáls má rekja til ákvörðunar stjórnar MÍR árið 2022 um að leggja niður starfsemi félagsins í núverandi mynd og í staðinn stofna sjóð sem ætlaður væri til að styðja við verkefni sem tengjast rússneskri menningu.
Sigurður Þórðarson sem var á fundinum sagði við samstöðina „Gríðarleg stemning var meðal fundarmanna um að ganga í félagið og leggja því lið. Fjöldi ræðumanna lýsti áhuga á að efla félagið og komu með tillögur og hvatningu í þá veru.“
„Fundurinn var boðaður með 5 daga undirbúningi. Stemning fundarins og þátttakan á Netinu afsanna þá fullyrðingu hinnar löglausu stjórnar að vilji sé til þess hjá félagsmönnum að leggja félagið niður!“ sagði Sigurður.
Ályktun fundarins var samþykkt með yfir 100 atkvæðum gegn einu: „Við skorum á fyrrum stjórn MÍR að hlíta þeim dómi sem gekk 20. mars síðastliðinn, þar sem kjör hennar var lýst ógilt. Fundurinn telur að sá hópur hafi ekki starfað í samræmi við stefnu og markmið félagsins og rofið menningartengsl frekar en styrkt. Þá hefur hópurinn bakað félaginu fjárhagslegt tjón með málaferlum í stað þess að verða við sjálfsögðum kröfum félagsmanna um lögmætan aðalfund. Fundurinn ályktar að þessir aðilar njóti ekki lengur trausts og verði tafarlaust að stíga til hliðar og afhenda húsnæðið, skjöl og reikninga félagsins svo hægt sé að byggja það upp á ný.“
Að lokum segir Sigurður: „Margt má segja um 73 ára sögu félagsins. Ísland er t. d. eina NATO-landið í Evrópu sem fengið hefur Bolsoj-ballettinn í heimsókn en hann var sýndur í Þjóðleikhúsinu árið 1956. Íslenskir höfundar óvíða hafa verið meira gefnir út en í Rússlandi. Sovéskir skákmeistarar hafa sótt Ísland heim og okkar fremstu skákmenn náðu árangri með því að læra að lesa rússnesk skákblöð. Um langt árabil gegndi Ísland hlutverki sem friðflytjandi og sáttasemjari. (Nú er öldin önnur).“
Mynd : Félagi í MÍR og viðmælandi Samstöðvarinnar Sigurður Þórðarson Mynd 2: Lýsandi mynd sem segir sögu um langa og merka sögu félagsins.
Mynd 3: Frá fjölmennum fundi sem haldinn var safnaðarheimili Laugarneskirkju síðasta fimmtudag.