Hneykslasaga Bjarna – þess vegna fjölgar undirskriftum svo ört

Nú þegar um 30.000 Íslendingar hafa afþakkað þjónustu Bjarna Benediktssonar sem forsætisráðherra á island.is er við hæfi að rifja upp sum þeirra álitamála sem tengjast stjórnartíð Bjarna.

Áður en Bjarni varð formaður Sjálfstæðisflokksins eftir slag við Kristján Þór Júlíusson var hann einn af helstu stjórnendum viðskiptaveldis þar sem faðir hans, Benedikt Sveinsson, og föðurbróðir, Einar Sveinsson, voru fjárfestar og áttu fyrirtæki þeirra hlutabréf í Íslandsbanka, síðar Glitni, olíufélaginu N1, Icelandair, Bílanausti og fleiri félögum. Þá var Bjarni stjórnarformaður olíufélagsins N1, móðurfélags þess BNT ehf og Bjarni sat í stjórnum annarra félaga.

Í úttekt Heimildarinnar í fyrrahaust þegar Bjarni sagði af sér ráðherradómi vegna Íslandsbankahneykslisins, skrifaði Ingi Freyr Vilhjálmsson úttekt um hneykslismál Bjarna:

„Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út 2010 kom í ljós að fyrirtækjasamstæðan sem Bjarni stýrði ásamt öðrum var meðal stærstu skuldaranna í íslensku bankakerfi. Samkvæmt úttektum sem á endanum voru gerðar á afskriftum þessara fyrirtækja í bankakerfinu þá námu þær um 130 milljörðum króna. Þá kom enn frekar í ljós síðar að Bjarni var miklu beinni þátttakandi í daglegum rekstri og ákvarðanatöku þessarar fyrirtækjasamstæðu en áður hafði legið fyrir.“

Vafningsmálið var hneyksli númer tvö segir í grein Heimildarinnar. Flókna fléttu viðskiptagjörninga sem snerist um endurfjármögnun á hlutabréfum fjölskyldufyrirtækis Bjarna í Glitni í febrúar árið 2008.

Hneyksli þrjú er samkvæmt Heimildinni Borgunarmálið svokallaða. Ekki tókst að sanna að Bjarni hefði komið að ákvörðunum um að koma fé undan í skattaskjól.

Enn komst Bjarni í vandræði vegna skattaskjóla þegar Panamaskjölin voru birt. Þau kostuðu Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherrastól og framsóknarmennskuna en mörgum þótti einkennilegt að Bjarni stæði sama mál af sér sem formaður síns flokks.

Það afhjúpaðist að Bjarni átti hlut í fyrirtæki í skattaskjólinu á Seychelles-eyjum, Falson & Co., sem stofnað var í gegnum Mossack Fonseca árið 2006 til að stunda fasteignaviðskipti í Dubai. Bjarni gerði lítið úr aðkomu sinni að þessu fyrirtæki og sagði meðal annars að hann hafi haldið að það væri staðsett í Lúxemborg en ekki á Seychelles-eyjum að því er Ingi Freyr rekur.

Líkt og Heimildin greindi frá í fyrrahaust kom fram í tölvupóstum ári síðar, í svokölluðum Glitnisgögnum,  að Bjarni hafði fylgst vel með áætluðum hagnaði af fasteignaviðskiptum Falson meðan hann átti í félaginu. Búist var við 50 til 60 milljóna króna hagnaði af viðskiptunum. 

„Þetta er aðeins lakara en maður var að vona en samt í fínu lagi,“ sagði hann í tölvupósti til viðskiptafélaga síns í desember árið 2007.

Í Panamaskjölunum kom einnig fram að faðir Bjarna hafði stofnað og átt félag í skattaskjólinu Tortólu. 

„Öfugt við Sigmund Davíð stóð Bjarni þetta mál, Panamaskjölin, af sér sem ráðherra. Hann þurfti ekki að segja af sér og slapp tiltölulega þægilega frá því jafnvel þó um hafi verið að ræða alþjóðlegt hneykslismál sem snerti stjórnmálamenn víða um heim,“ segir í úttekt Heimildarinnar.

Næsta hneyksli sprengdi ríkisstjórn Bjarna í fyrra skiptið sem hann varð forsætisráðherra, í um níu mánuði. Dæmdir barnaníðingar fengu þá æru sína uppreista og gátu þakkað föður Bjarna það og fleirum sem skrifuðu meðmælabréf.  Áður hafði verið kallað eftir gögnum um veitingu uppreistrar æru úr dómsmálaráðuneytinu. Ráðuneytið, sem á þessum tíma var stýrt af Sigríði Andersen, hafnaði þeim beiðnum.

Þetta leiddi af sér annað hneyksli þegar Stundin greindi frá því skömmu fyrir kosningar 2017 að Bjarni hefði selt hlutdeildarskírteini sem hann átti í Sjóði 9 hjá Glitni í byrjun október árið 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett.

Bjarni hefði selt hlutabréf sín í bankanum í skrefum í aðdraganda bankahrunsins og byrjað á því eftir að hafa komið að Vafningsviðskiptunum svokölluðu í febrúar.

Bjarni og fjölskylda hans komu sér undan því að tapa peningum á hruninu með þessari ótrúlegu tímasetningu, sem kannski mátti rekja til ákveðinna upplýsinga. Bjarni hafði á þessum tíma setið fundi um stöðu Glitnis og íslenska bankakerfisins á grundvelli starfa sinna sem þingmaður. Hann bjó því yfir upplýsingum sem aðrir bjuggu ekki yfir.

Skammt var stórra högga á milli. Sýslumaðurinn í Reykjavík setti lögbann á frekari umfjöllun Stundarinnar um Glitnisgögnin. Það þýddi að bannað var að fjalla með frekari hætti um gögnin í aðdraganda kosninganna. 

Bjarni sagði þá:

„Ég bað ekki um þetta lögbann, mér finnst það í raun og veru út í hött að það sé verið að skrúfa fyrir fréttaflutning úr þessum gögnum hvað mig sjálfan snertir.“

Sannarlega má þó færa rök fyrir að hann hafi grætt á því.  Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefði væntanlega skaðast ef almenningur hefði fengið þær upplýsingar sem almenningur átti rétt á að fá og lögbannið vakti verulega athygli erlendis líkt og Heimildir rekur.

Það var sett í samhengi við að stjórnvöld hefðu kæft niður umfjöllun um þennan valdamikla stjórnmálamann sem gegndi embætti forsætisráðherra á þeim tíma. Vegna lögbannsins var ekki fjallað meira um Glitnisgögnin í rúmt ár eftir setningu lögbannsins sem var svo hent út af borðinu sem rökleysu tæpu einu og hálfu ári síðar í mars 2019 þegar Hæstiréttur Íslands staðfesti niðurstöður Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur þar um. 

Þá er ógetið máls í Ásmundarsal þegar Bjarni rétt fyrir jól í miðjum covid-faraldri sótti partý í sal sem samkvæmt þágildandi Covid-reglum átti að vera lokaður til að koma í veg fyrir útbreiðslu faraldursins. Um ræddi brot á sóttvarnarlögum. Sambærileg mál höfðu ratað ítrekað í fjölmiðla í öðrum löndum þar sem ráðamenn virtu ekki Covid-reglur. Bjarni lét duga að senda út afsökunarbeiðni í stað þess að segja af sér. Og lögreglan sem hafði upplýst um brotið var allt í einu orðin vondi karlinn í málinu.

Salan á bréfum Íslandsbanka þar sem pabbi Bjarna var meðal kaupenda er eitt síðasta hneykslið og þykir tugþúsundum Íslendinga nóg um að fyrst hafi Bjarni uppfært sig sem utanríkisráðherra og nú er hann orðinn forsætisráðherra.

„Aldrei áður hefur vantraust á stjórnmálamann mælst 71%. Jafnvel þótt við leituðum til annarra landa er hæpið að við finnum viðlíka höfnun þjóðar á nokkrum stjórnmálamanni,“ skrifaði Gunnar Smári Egilsson blaðamaður undir fyrirsögninni „Spilltasti og óvinsælasti stjórnmálamaður sögunnar“ fyrir tveimur árum á Vísi og voru þá ekki öll kurl komin til grafar samanber álitaefni síðustu missera.

Til samanburðar nefndi Gunnar Smári í pistli sínum að þegar Richard M. Nixon flaug í þyrlu frá Hvíta húsinu, eftir að hafa sagt af sér vegna Watergate-hneykslisins, treystu hlutfallslega fleiri Bandaríkjamenn Nixon en Bjarna.

„En hvers vegna treysta svona fáir Bjarna, manni sem hefur líklega verið valdamesti maður landsins síðustu níu ár?“ spurði Gunnar Smári.

Svo rakti hann í vísisgrein sinni:

12. febrúar 2008:Bjarni skrifar undir veðsamninga dagsetta aftur á bak í tímann til að bjarga Milestone, félagi Wernersbræðra, frá gjaldþroti. Með þessum gjörningi voru færðir 10 milljarða króna frá Glitni til eigenda bankans þvert á lánareglur bankans. Bjarni var stjórnarformaður Vafnings.

6. október 2008: Bjarni innleysti 50 milljóna króna eign sína í sjóði 9 í Glitni og bjargaði sér þannig frá miklu tapi, öfugt við meginþorra þeirra sem lagt höfðu sparnað sinn inn í þennan sjóð. Bjarni sat í efnahags- og skattanefnd á þessum tíma og fékk þar upplýsingar um gríðarlega alvarlega stöðu Glitnis.

8. apríl 2009: Bjarni lýsir yfir að Sjálfstæðisflokkurinn muni endurgreiða svimandi háa styrki sem Hrunfyrirtæki veittu flokknum á árunum fyrir Hrun, m.a. 55 milljónir króna inn í þrotabú FL-Group og Landsbankans. Við þetta hefur ekki verið staðið.

1. desember 2010: Máttur tekinn til gjaldþrotaskipta. Máttur var fjárfestafélag Engeyingar og Wernersbræðra sem átti hluti í Glitni, Icelandair og fleiri félögum. Við gjaldþrotið töpuðust um 33 milljarðar króna á núvirði. Bjarni var stjórnarmaður.

21. janúar 2013: Skiptum á þrotabúi EM 13 lokið, en félagið hét áður BNT og var hluti af fyrirtækjasamstæðu N1, sem fjölskylda Bjarna var leiðandi hluthafi í. Bjarni var stjórnarformaður BNT. Engar eignir fundust í búinu en 4,3 milljarða kröfur. Samtals nam tap vegna gjaldþrota fyrirtækja sem tengdust þessari fyrirtækjasamsteypu Engeyinga og Wernersbræðra vel yfir 200 milljörðum á núvirði (samkvæmt greiningu Gunnars Smára).

21. nóvember 2014: Hanna Birna Kristjánsdóttir segir af sér sem innanríkisráðherra eftir að aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka trúnaðargögnum um hælisleitendur úr innanríkisráðuneytinu í fjölmiðla. Fram að þessu hafði Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn hafnað öllum fréttum um lekann úr ráðuneytinu og lýst yfir stuðningi við Hönnu Birnu og Gísla Frey.

25. nóvember 2014: Landsbankinn selur hlut sinn í greiðslumiðlunarfélaginu Borgun án útboðs til fáeinna aðila, þar á fyrirtækis í eigu ættingja Bjarna. Það fyrirtæki hagnaðist gríðarlega á þessum viðskiptum þar sem Landsbankinn gætti ekki að yfirvofandi greiðslu Visa inn í Borgun. Söluverðið var því langt undir raunvirði. Við söluna á Borgun til Salt pay högnuðust ættingjar Bjarna enn meir.

31. ágúst 2015: Vísir greinir frá því að Bjarni hafi verið skráður á stefnumótavefinn Ashley Madisson undir nafninu IceHot 1.

3. apríl 2016: Kastljós Ríkisútvarpsins í samstarfi við aðrir miðla afhjúpa að Bjarni hafi átt þriðj­ungs­hlut í félag­inu Falson&Co. sem skráð var á Seychelles-eyj­­um. Þær eyjar eru þekkt skatta­skjól. Bjarni átti hlut í félag­inu vegna fast­eigna­við­skipta í Dubai sem hann tók þátt í árið 2006.

13. september 2016: Bjarni fær afhenta skýrslu starfshóps um aflandseignir Íslendinga en kýs að halda henni leyndri fyrir þingi og þjóðinni til að forðast umræðu um þessi mál fyrir kosningarnar það haustið. Skýrslan verður ekki opinber fyrr en við ráðherraskipti í fjármálaráðuneytinu.

15. maí 2017: Bjarni knýr í gegn samþykki þingmanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við skipan Sigríðar Andersen á fimmtán dómurum í Landsrétt. Mannréttindadómstóll Evrópu dæmir síðan þessa skipun ólöglega og Sigríður segir af sér sem dómsmálaráðherra.

14. september 2017: Í ljós kemur að Benedikt, faðir Bjarna, hafði veitt manni, sem nauðg­aði stjúp­dótt­ur sinni í tólf ár, um­sögn svo hann gæti feng­ið upp­reist æru. Stundin og síðan aðrir fjölmiðlar og Alþingismenn höfðu vikurnar og mánuðina á undan leitað upplýsinga um þetta mál en engin svör fengið. Sigríður Andersen hafði hins vegar greint Bjarna sjálfum frá þessu einum og hálfum mánuði fyrr.

17. október 2017: Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Þórólfur Halldórsson, sem telja verður innvígðan og innmúraðan Sjálfstæðisflokksmann, setur lögbann á umfjöllun Stundarinnar um þátttöku Bjarna í vafasömum fjármálagjörningum fyrir Hrun.

20. nóvember 2018: Í samtali Miðflokksmanna við tvo þingmenn Flokks fólksins á Klausturbar kemur fram að Bjarni hafði fullvissað Gunnar Braga Sveinsson þegar Gunnar var utanríkisráðherra um að Sjálfstæðisflokkurinn myndi launa honum það með góðri stöðu ef Gunnar skipaði Geir H. Haarde sem sendiherra Íslands í Washington.

12. nóvember 2019: Kveikur Ríkisútvarpsins afhjúpar viðskiptahætti Samherja í Namibíu og tengsl fyrirtækisins við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins. Bjarni lýsti yfir trausti á Kristjáni.

23. desember 2020: Bjarna er vísað úr Ásmundarsal ásamt öðrum gestum í samkvæmi sem braut gegn sóttvarnarreglum vegna kórónafaraldursins.

25. september 2021: Lög eru brotin við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi, formaður kjörstjórnar er innmúraður og innvígður Sjálfstæðisflokksmaður. Meirihluti kjörbréfanefndar Alþingis undir forystu Birgis Ármannssonar leggur til að ekki verði kosið aftur.

14. febrúar 2022: Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, innmúruð og innvígð Sjálfstæðisflokkskona, boðar blaðamenn sem fjölluðu um skæruliðadeild Samherja til yfirheyrslu. Bjarni lýsir yfir stuðningi við þessa boðun og skammar fjölmiðla fyrir að fjalla um málið sem aðför að réttindum blaðamanna.

6. apríl 2022: Listi yfir kaupendur afhjúpar að Bjarni og bankasýslan höfðu selt í lokuðu útboði hlutabréf almennings í Íslandsbanka með afslætti til föður Bjarna og margra af helstu leikenda í Hruninu.“

Spurningin er því ekki hvort Bjarni hafi verið viðriðinn mál sem hefðu að líkindum kallað á brotthvarf úr stjórnnmálum í nágrannaríkjum.

Spurningin er frekar hvort fjöldi slíkra mála sé undir tíu eða yfir tuttugu alls og er þá ógetið pólitískra áhrifa Bjarna þegar hann ræddi tjaldbúðir flóttafólks á Austurvelli og hafa margir túlkað ummæli hans sem stak í mengi þess að kynda undir útlendingaandúð.

Grein Heimildarinnar: Öll hneykslismálin sem Bjarni stóð af sér – Heimildin

Grein Gunnars Smára: Spilltasti og óvinsælasti stjórnmálamaður sögunnar – Vísir (visir.is)

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí