Hungur sverfur að á Haítí – Tugþúsundir barna lífshættulega vannærð

Æ fleira fólk á Haítí líður hungur og vara hjálparstarfsmenn, læknar og trúboðar í landinu við því að ástandið sé við það að verða að hungursneyð. Höfuðborgin Port-au-Prince hefur í tvö mánuði verið einangruð frá umheiminum og allar birgðir matar, lyfja og annarra nausynjavara eru á þrotum. Alþjóðaflugvöllurinn er lokaður og höfnin einnig, og þá hafa glæpahópar lokað öllum leiðum inn og út úr borginni.

Þannig greinir CNN frá því að trúboði sem fréttastofan ræddi við hafi lýst því að starfsmenn hjálparsamtaka sinna, sem reyna að koma mat og vatni til fólks í höfuðborginni Port-au-Prince, hafi hitt fyrir fólk sem ekki hefur fengið matarbita í heila viku. Í sumum hverfum borgarinnar sé engan mat að hafa og enginn matur sé á leiðinni. 

Haítí er í reynd stjórnlaus en eftir að Ariel Henry forsætisráðherra sagði af sér í síðasta mánuði hefur enn ekki verið mynduð ný ríkisstjórn. Enn er beðið eftir fjölþjóðlegu friðargæsluliði sem vonast var til að sent yrði til landsins til að reyna að ná stjórn á ástandinu en stærstur hluti höufðborgarinnar og æ stærri hluti landsins alls er á valdi glæpagengja. Gengin hafa einangrað Port-au-Prince sem gerir það nálega ókleyft að koma þangað hjálpargögnum. Að því er Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir er talið að hið minnsta 58 þúsund börn í höfuðborginni búi við lífshættulega vannæringu. 

Þá hefur einangrun höfuðborgarinnar keðjuverkandi áhrif út um landið allt en hafnarborgin er langmikilvægasti áfangastaður innflutnings til Haítí. Að því er Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út búa um fimm milljónir manns á Haítí við matvælaóöryggi, en skilgreining þess er að fólk skortir mat svo það stofnar því í lífshættu. Framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna gagnvart Haítí segir að staðan nú sé sú versta síðan jarðskjálftarnir miklu riðu yfir árið 2010. 

Glæpagengin hafa eyðilagt sjúkrahús og rænt þau, sem og vöruskemmur og matvælageymslur. Í síðasta mánuði var ráðist á gámasvæði og það rænt. Meðal þeirra gáma sem brotist var inn í var gámur á vegum UNICEF, fullur af lækningavörum og öðrum nauðsynjum fyrir nýbura. 

Þúsundir barna eru sögð í lífshættu, bæði sökum vannæringar og skorts á lyfjum og lækningatækjum. Læknar segjast að undanförnu hafa séð hvað verstu tilfelli vannæringar barna sem þeir hafi orðið vitni að á ferlinum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí