Útgöngubann hefur verið framlengt á Haítí og mótmæli bönnuð á meðan stjórnvöld reyna að stemma stigu við ofbeldisöldunni sem riðið hefur yfir landið. Um síðustu helgi réðust vopnaðir meðlimir glæpagengja á tvö stærstu fangelsi landsins, yfirbuguðu þar verði og frelsuðu um fjögur þúsund fanga, marga með þunga dóma fyrir ofbeldisbrot á bakinu.
Barist hefur verið á götum höfuðborgarinnar Port-au-Prince dögum saman, allt frá því á fimmtudag í síðustu viku þegar samhæfðar aðgerðir glæpagengjanna hófust. Hafa meðlimir þeirra ráðist á innviði í landinu, þar á meðal alþjóðaflugvöllinni, sem er óstarfhæfur vegna bardaga meðlima gengjanna við lögreglu.
Útgöngubann til þriggja daga var lagt á síðastliðinn sunnudag en yfirvöld framlengdu það í gær. Í yfirlýsingu sagði að lögreglu hefði verið skipað beita öllum löglegum meðulum til að framfylgja útgöngubannninu og hafa hendur í hári allra brotamanna. Slíkar yfirlýsingar duga þó skammt því lögregla í landinu er fámenn, um 9.000 manna lið, og ræður lítt við skipulagða glæpahópanna sem halda stórum hlutum landsins. Talið er að minnsta kosti 80 prósent höfuðborgarinnar séu á valdi gengjanna.
Sitjandi forsætisráðherra landsins, Ariel Henry, er nú staddur í Púertó Ríkó, þar sem hann neyddist til að lenda á ferð sinni frá Kenýa sökum þess að alþjóðaflugvöllurinn á Haítí er lokaður. Henry var að koma frá Kenýa þar sem hann freistaði þess að fá Sameinuðu þjóðirnar til að senda friðargæslulið leitt af hermönnum frá Kenýa til að reyna að stemma stigu við ofbeldinu heima fyrir.
Jimmy Cherizier, leiðtogi eins helsta gengisins og sá sem sagður er hafa samhæft árásir gengjanna, lýsti því á þriðjudag að færi Henry ekki frá völdum myndi það kosta borgarstyrjöld á Haítí, með meðfylgjandi þjóðarmorði.