Ariel Henry forsætisráðherra hefur samþykkt að segja af sér sem forsætisráðherra Haítí og mun hann og ríkisstjórn hans víkja þegar skipað hefur verið svokallað breytingaráð. Afsögn Henry kemur í kjölfar ofbeldisöldu í landinu þar sem glæpagengi hafa barist við lögreglu á götum höfuðborgarinnar Port-au-Prince. Í byrjun mánaðarins réðust glæpagengi á stærstu fangelsi landsins og frelsuðu þaðan um 4.000 fanga sem nú ganga lausir.
Almenningur hefur einnig krafist afsagnar Henry og þrýst hefur verið á hann að segja af sér af fulltrúum annarra ríkja. Jimmy Cherizier, leiðtogi eins helsta glæpagengisins á Haítí, sem sagður er hafa samhæft árásir glæpagengja í landinu, hótaði því að segði Henry ekki af sér embætti myndi Haíti steypast út í blóðuga borgararstyrjöld.
Samtök Karíbahafsríkja funduðu í gær ásamt Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna um leiðir til að aðstoða stjórnvöld við að takast á við glæpagengin á Haíti. Bandaríkin hafa heitið verulegum fjárhagsstuðningi til þess verkefnis, um 100 milljónum Bandaríkjadala til friðargæslu og ríflega 30 milljónum til mannúðaraðstoðar.
Henry hefur setið að völdum eftir að forseti Haítí var myrtur árið 2021. Hann hafði heitið því að boða til kosninga í landinu en hefur ekki staðið við þau fyrirheit, og borið fyrir sig ótryggt ástand í landinu.