Framganga Ísrael gagnvart Palestínu er með slíkum hætti að Íslendingar hafa engan áhuga á að fylgjast með keppninni þetta árið. Þetta segir Arnar Eggert Thorodddsen aðjúnkt í félagsfræði við HÍ og landsþekktur poppskríbent.
„Þetta er einfalt og hefur þær afleiðingar að fólk hefur ekki lyst á að fylgjast með keppninni. Það er ekki flóknara,“ segir Arnar Eggert. „Það sem er að gerast þarna suður frá er svo viðbjóðslegt, svo grimmt og svo mikið út úr kú að fólk er barasta slegið. Alla reikninga fyrir þögn, hunsun og áhugaleysi skal senda beinustu leið til Netanjahú og co. Þeir bera ábyrgðina á þessu,“ segir hann í ummælum við umræðu á Facebook-síðu Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa.
Þórdís Lóa er systir Heru Bjarkar Þórhallsdóttur, flytjanda framlags Íslands í keppninni í ár. Hera Björk ákvað að taka þátt í kepnninni þrátt fyrir mikinn þrýsting um annað, meðal annars sagði höfundur lagsins, Ásdís María Viðarsdóttir, að samviska sín leyfði sér ekki að fylgja laginu út í kepnnina.
Í færslu sinni veltir Þórdís Lóa því fyrir sér hvernig á því skuli standa að lítið fari fyrir fréttum af ferð Evróvisjón hópsins út til Malmö, þar sem keppnin fer fram. Í langri færslu tekst Þórdísi Lóu að skauta fimlega framhjá því að nefna nokkrun tíma hvernig á því gæti staðið, hún nefnir hvergi mótmæli við þátttöku Ísraels í keppninni eða þjóðarmorðið sem Ísraelar eru að fremja á íbúum Gaza. Þórdís Lóa skrifar að að ákvörðunin um að taka þátt hafi tekið þungt á marga, án þess að fara nánar út í af hverju það var.
„Nú er ekki tími til að einangra sig og hætta við þátttöku í listum, menningu eða íþróttum. Nú þurfum við að sjást og heyrast og allt litróf skoðanna að fá tækifæri án upphrópanna eða stríðsyfirlýsinga,“ skrifar Þórdís Lóa. Hvaða litróf skoðana það er sem þörf er á að fái sjást og heyrast án upphrópana kemur ekki fram heldur.
Mikil umræða hefur átt sér stað á samfélagsmiðlum síðustu daga um hvort Rúv hafi ekki stutt Heru Björk sem skyldi. Keppnin fer fram nú í vikunni. Gæti áhorf orðið minna en nokkru sinni vegna sniðgöngu. Margir telja ranga ákvörðun hjá Íslandi að við sendum framlag í ljósi voðaverka Ísraela á Gaza þar sem Ísraelar hafa síðustu mánuði slátrað Palestínufólki, börnum og konum ekki síst.