Óhætt er að segja að umræða um jarðgöng hér á landi hafi lifnað hressilega við eftir að fjölfarnar slóðir á þjóðvegi eitt tepptust víða um páskana. Sumar byggðir voru einangraðar dögum saman.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri vill göng milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Hún skrifaði facebook-færslu um páskana sem fjallaði um lokaða Öxnadalsheiði. Einbreið jarðgöng við hjáleið yfir Tröllaskaga þoldu ekki viðbótarumferðina. Þúsundir vegfarenda lentu í vandræðum.
Þá var Fjarðaheiði fyrir austan lokuð um margra daga skeið. Seyðfirðingar glímdu við vöruskort og er því ekki bara um ferðaþjónustulegt atriði að ræða.
Færeyingar líta ekki til höfðatölu notenda þegar þeir taka ákvarðanir um jarðgöng. En hér hefur verið haft á orði að umræða um jarðgöng litist af þeirri byggðaslagsíðu sem fylgir svokölluðu einnar borgar kerfi.
Áköll um fleiri jarðgöng koma ekki bara utan af landi þessa dagana. Einn reyndasti fjölmiðlamaður þjóðarinnar, Heimir Karlsson, segir í færslu sem hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum að aðrar þjóðir líti á jarðgöng sem sjálfsagða samgöngubót. Það sé dapurlegt hvað við Íslendingar höfum leyft okkur að dragast aftur úr.
Heimir telur ennfremur að hringvegurinn ætti að vera tvöfaldur en ekki einbreiður. Hrina banaslysa í upphafi ársins vakti ugg og spurði spurninga um öryggi vegfarenda í vetrarfærð.
„Einhverjir hefðu séð ofsjónum yfir kostnaðinum sem þessu hefði fylgt, en ég kýs að kalla þetta fjárfestingu en ekki kostnað,“ segir Heimir sem vill fjölda nýrra jarðganga. „Ef þeir sem réðu hér áður fyrr, t.d. í kringum 1990, hefðu hrint því í framkvæmd að gera tvenn göng á 5 ára fresti, værum við 7 göngum ríkari í dag. Þau hefðu breytt miklu fyrir land og þjóð.“
Geta má þess að bráðlega verður ný samgönguáætlun lögð fram á Alþingi. Er viðbúið að umræða og áættlanir taki mið af því ákalli sem nú er uppi um fleiri jarðgöng og öruggari vegi.