„Öflugasti einstaki talsmaður Íslands í þessu örlagamáli í erlendum fjölmiðlum var án efa Ólafur Ragnar Grímsson. Framlag hans reyndist Íslendingum afar mikilvægt.“
Þetta skrifar Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, í pistli þar sem hann fjallar um hverjir það hafi verið sem töluðu máli Íslands í Icesave-deilunni. Vísar Ögmundur til þess að deilan hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu „og þá hver hafi gert hvað hvað og sagt hvað“.
Í viðtali í þættinum Spursmál á mbl.is síðastliðinn mánudag lýsti Katrín Jakobsdóttir, forsetaframbjóðandi, fyrrverandi forsætisráðherra og flokkssystir Ögmundar, því að hún teldi að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi talað máli Íslands og íslenskra hagsmuna á alþjóðlegum vettvangi í kjölfar fjármálahrunsins. Í þættinum er vísað til orða Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta, sem oft og ítrekað hefur fullyrt að hann hafi verið eini málsvari Íslands á erlendum vettvangi.
Meðal annars er vísað til eftirfarandi orða Ólafs Ragnars úr viðtali í nóvember á síðasta ári: „Að þótt margt megi segja gott um þessa stjórn Jóhönnu og Steingríms þá vanræktu þau algjörlega að tala við fjölmiðla heimsins […] Ég lenti í því sem forseti þarna í rúmt ár eða jafnvel lengur að vera eini málsvari Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Það er reyndar ekki hluti af starfsskyldum forsetans.“
Þegar gengið var á Katrínu varðandi þessa túlkun Ólafs Ragnars svaraði hún því til að hún teldi að ríkisstjórnin hefði gengið fram í þessum málum. „Rifja ég upp utanríkisráðherra í þeim málum og fleiri ráðherra sem gengu þar fram fyrir skjöldu og voru einnig að halda uppi vörnum fyrir Ísland. Þess vegna segi ég að mér finnst mikilvægt að forsetinn geti nýtt sína stöðu á alþjóðavettvangi ef þörf er á,“ sagði Katrín
Málstaður Íslands mismunandi skilgreindur
Ögmundur gerir í grein sinni ákveðnar athugasemdir við þetta, þó hann vísi ekki beint til Katrínar. Segir hann að allir sem hafi tjáð sig á þessum tíma telji sig væntanlega hafa talað máli Íslands og hann efist ekki um að það sé rétt. „En það breytir því ekki að málstað Íslands skilgreindu menn með mismunandi hætti.
Þáverandi ríkisstjórn, Samfylkingar og VG og reyndar einnig sú sem áður sat, það er stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, taldi að okkur bæri að ganga að kröfum Breta og Hollendinga og semja um greiðslur úr ríkissjóði Íslands og auk þess greiða vexti og málskostnað.“
Segir Ögmundur að þau sem hafi viljað fallast á að gefa eftir í málinu telji nú sum hver að deilan hafi litlu máli skipt þar að eignir þrotabúanna hafi dugað til að greiða innistæðueigendum. „Þá er horft framhjá himinháum vaxta- og málskostnaði sem nam 5,8 % af vergri landsframleiðslu í fyrsta Icesave samningnum að ógleymdri óvissunni því enginn vissi fyrir víst hvað þrotabúin höfðu að geyma.“
Ögmundur skrifar jafnframt að þegar horft sé til þeirrra sem gagrýndu Icesave samningana utan Íslands hafi margir haft sig í frammi og því fari fjarri að Ólafur Ragnar hafi verið einn um að halda andófinu uppi. Nefnir Ögmundur InDefence hópinn og bætir við að sá félagsskapur hafi að því er virðist skipulega verið þagaður í hel. Fleiri hafi svo sem komið að umræðunni á alþjóðavettvangi en það breyti því ekki að Ólafur Ragnar hafi verið öflugasti einstaki talsmaður Íslands í málinu í erlendum fjölmiðlum.
„En í mínum huga snerist Icesave deilan um annað og meira en peninga, hún snerist um sjálfan grundvöll stjórnmálanna. Þetta mál snerti mig sjálfan með mjög beinum hætti því það varð til þess að ég sá mig tilknúinn að segja af mér sem ráðherra og átti málið eftir að vinda upp á sig í langvinnum deilum um það sem ég vil kalla prinsipmál í stjórnmálum,“ skrifar Ögmundur en pistil hans í heild má lesa hér.