Einn af hverjum fimm launþegum í BHM hefur mikinn áhuga á því að skipta um starf og/eða vinnustað, samkvæmt lífskjararannsókn BHM. Algengustu ástæður sem félagsfólk gefur upp eru launin, stjórnunarhættir á vinnustað og starfstengt álag en misjafnt var hvaða ástæður mest voru gefnar upp eftir því hvar fólk vinnur og í hvaða geira.
Í rannsókninni er spurt „Hversu lítinn eða mikinn áhuga hefur þú á því að skipta um starf og/eða vinnustað?“. Einn af hverjum fimm (21%) kvaðst hafa frekar mikinn eða mjög mikinn áhuga á því en ekki reyndist munur á vilja fólks til starfaskipta eftir því hvort það starfar hjá ríkinu, Reykjavíkurborg eða öðru sveitarfélagi, eða á almennum markaði. Hins vegar hefur áhrif í hvaða atvinnugrein fólk starfar. Innan BHM eru fjórir atvinnugeirar stærstir en þeir eru: Heilbrigðisþjónusta, opinber stjórnsýsla og almannatryggingar, fræðslustarfsemi og félagsþjónusta. Þegar félagsfólk innan þessara geira er borið saman hvað varðar löngun til þess að skipta um starf reynist löngunin marktækt mest hjá starfsfólki í opinberri stjórnsýslu og almannatryggingum en þar hefur einn af hverjum fjórum hug á að leita annað.
Þau sem sögðust hafa frekar eða mikinn áhuga á að skipta um starf eða vinnustað voru í kjölfarið spurð hver væri helsta ástæða þess. Voru fyrirframgefnir möguleikar sex: Starfstengt álag, ógn við öryggi mitt eða skjólstæðinga minna, launin, stjórnunarhættir á vinnustað, vinnutíminn og andinn á vinnustaðnum. Að auki var möguleiki að skrifa eigið svar. Þegar opnu svörin höfðu verið kóðuð bættust við þrír svarmöguleikar: Löngun í tilbreytingu, fjarlægð núverandi vinnustaðar frá heimili; og svo mannekla og skortur á fagmennsku á vinnustaðnum. Algengustu ástæður sem svarendur gáfu upp voru launin (33%), stjórnunarhættir á vinnustað (27%), starfstengt álag (18%), löngunin til að breyta til (9%) og andinn á vinnustaðnum (6%). Talsverður munur er þó á svörum fólks eftir því á hvaða markaði það starfar eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Til dæmis voru launin meira nefnd hjá félagsfólki sem starfar hjá ríkinu en hjá öðru félagsfólki BHM og starfstengt álag meira nefnt hjá félagsfólki sem starfar hjá sveitarfélögunum en þeim sem starfa hjá öðrum vinnuveitendum.
Ástæður þess að fólk vill skipta um starf eru einnig nokkuð ólíkar eftir því í hvaða geira fólk starfar. Þannig eru launin algengasta ástæðan hjá félagsfólki sem starfar annað hvort í heilbrigðisþjónustu eða í fræðslustarfsemi á meðan starfstengt álag er mest nefnt hjá þeim sem starfa í félagsþjónustu. Hjá opinberri stjórnsýslu voru hins vegar stjórnunarhættir á vinnustaðnum mest nefnda ástæðan.
Mest óánægja með laun hjá ríkinu
Félagsfólk BHM sem vinnur hjá ríkinu er óánægðara með launin sín en þau sem vinna hjá sveitarfélögunum eða á almennum markaði. Spurt var „Hversu mikil er ánægja þín eða óánægja með þau laun sem þú færð fyrir aðalstarf þitt?“ og voru gefnir upp svarmöguleikarnir mjög mikil ánægja, frekar mikil ánægja, hvorki né, frekar mikil óánægja og mjög mikil óánægja. Hlutfall þeirra sem sögðu óánægju sína mjög eða frekar mikla var 43% meðal ríkisstarfsmanna á móti 37% meðal starfsfólks sveitarfélaganna og tæp 28% á almenna markaðnum. Hlutfall þeirra sem kváðust frekar eða mjög ánægð með launin var að sama skapi talsvert hærra á almenna markaðnum (39%) en hjá starfsfólki ríkis og sveitarfélaga (25%).
Ánægja og óánægja með laun er einnig nokkuð misjöfn eftir geirum. Mest er óánægjan hjá félagsfólki sem starfar í heilbrigðisþjónustu og fræðslustarfsemi og ánægjan mest í opinberri stjórnsýslu og öðrum geirum.
Í rannsókninni var spurt á sama hátt með ánægju eða óánægju með núverandi starf. Heilt yfir reyndust tæp 75% vera ánægð í starfi, 17% hvorki né og 8% óánægð. Enginn munur reyndist á milli starfsánægju fólks eftir vinnuveitanda né eftir geirum.
Minnstur árangur af launaviðtölum hjá ríkinu
Í rannsókninni er spurt hvort fólk hafi farið í launaviðtal á síðastliðnum tólf mánuðum og svara 17,2% því játandi heilt yfir. Hlutfall þeirra sem hefur farið í launaviðtal er þó afar misjafnt eftir vinnuveitanda. Lægst er það hjá sveitarfélögunum (7,2%), næst hjá ríkisstarfsmönnum (13,6%) og hæst á almenna markaðnum (31,8%). Þau sem svöruðu játandi voru spurð í kjölfarið hvort laun þeirra hefðu hækkað eftir viðtalið og sögðu 74% það hafa gerst. Árangurinn var þó mismikill eftir vinnuveitanda eða 85% hjá félagsfólki á almenna markaðnum á móti 63% hjá ríki og 59% hjá sveitarfélögunum.
Um lífskjararannsókn BHM
Lífskjararannsókn BHM var lögð fyrir félagsfólk í 22 aðildarfélögum BHM í upphafi ársins. Sendu aðildarfélögin könnunina út, hvert á sitt félagsfólk. Samtals var könnunin send á 16.563 einstaklinga og bárust 5.730 svör sem gefur 34% svarhlutfall. Niðurstöður eru vegnar eftir kyni og aðildarfélagi.
Frétt af vef BHM.