Ríkisútvarpið mun tvisvar fram að forsetakosningum efna til formlegrar kappræðu í sjónvarpi milli frambjóðenda.
Fyrri kappræðan fer fram annan föstudag, þriðja maí næstkomandi. Seinni kappræðan fer fram kvöldið fyrir kosningar. Íslendingar velja sér nýjan þjóðhöfðingja 1. júní næstkomandi.
„Við höldum þeim möguleika opnum ef þörf krefur að skipta síðari kappræðunum upp ef okkur finnst frambjóðendur það margir að þjóni betur lýðræðislegri umræðu,“ segir Stígur Helgason, ritstjóri kosningaumfjöllunar Rúv, í samtali við Samstöðina.
Kosningaeftirlit ÖSE hefur bent Ríkisútvarpinu á að það geti orðið kjósendum skaðlegt ef hver talar í kapp við annan í Ríkisútvarpinu í of stórum hópi fyrir kosningar.
Ef fjöldi frambjóðenda verður mikill munu þeir sem njóta mestu hylli samkvæmt skoðanakönnum verða saman í umræðu. Minni spámenn verða í annarri umræðu.
Rúv mun taka viðtöl við hvern frambjóðanda frá og með 13. maí næstkomandi. Að auki verður kosningaumfjöllun í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 og Speglinum á Rás eitt. Sérstakur kosningavefur verður settur á laggirnar með kosningaprófi og annarri þjónustu.
Samstöðin hefur undanfarið tekið fjölmörg viðtöl við frambjóðendur sem reyna við Bessastaði og er von á frekari umfjöllun fyrir kosningarnar af hálfu Samstöðvarinnar.