Björn Leví Gunnarsson, þingmaður pírata, telur að ríkisstjórnin, rúin trausti undir forystu óvinsælasta stjórnmálamanns landsins, hafi ekkert umboð til að selja síðasta eignahluta ríkisins í Íslandsbanka.
Þetta kom fram á Alþingi í ræðu sem þingmaðurinn flutti rétt í þessu í umræðu um sölu á eignarhlutnum. Salan verður auglýst í markaðsútboði en stjórnarandstöðuþingmenn segja útfærsluna of óljósa.
Hvorki er trausti fyrir að fara vegna fyrri sölu á bréfum bankans sem kostaði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherrastólinn eftir álit Umboðsmanns alþingis, né hefur stjórnin umboð vegna vendinga innanborðs að sögn þingmannsins.
Björn Leví rifjaði upp að stundum væri ekki nóg að skáka málum í skjóli þingmeirihluta. Mörg dæmi séu um að þjóðfélagið stöðvi lagabreytingar, um það vitni málskotsréttur forseta til þjóðarinnar, auk þess sem þingmaðurinn rifjaði upp Búsáhaldabyltinguna.
Ekki væri hægt að útiloka að sala á síðasta eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka gæti endað hjá forseta Íslands og síðar þjóðinni. Ekki væri ólílklegt að fjöldi manns myndi mótmæla að ríkisstjórnin ætlaði sér að koma bankasölunni í gegn.
Margir aðrir stjórnarminnihluta tóku undir með píratanum hvað vantraustið varðar en meirihlutaþingmenn sögðu ekkert að óttast.
Björn Leví verður í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld. Hann ræðir með Ingu Sæland formanni Flokks fólksins vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands sem flokkar þessara þingmanna standa sameiginlega að, auk þess sem fleiri fréttamál verða til umfjöllunar.