Öldungadeild Bandaríska þingsins samþykkti í gær frumvarp sem inniber að Bandaríkin veiti Úkraínu aðstoð í stríðinu við Rússa að andvirði 61 milljarðs Bandaríkjadala. Frumvarpið hafði verið samþykkt í fulltrúadeild þingsins um liðna helgi eftir að þingmenn Repúblikanaflokksins höfðu haldið málinu í gíslingu svo mánuðum skiptir.
Stjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta hafði í rúma fimm mánuði reynt að koma umræddum stuðningi við Úkraínu í gegnum þingið vestra en ekki tekist, fyrr en um liðna helgi og svo í gær. Alls greiddu 79 öldungardeildarþingmenn atkvæði með frumvarpinu en 18 greiddu gegn því.
Biden hefur heitið því að undirrita lögin án tafar svo þau komist til framkvæmda. Hefur stjórn hans lýst því að flutningur vopna og annars búnaðar hefjist þegar í þessari viku og á næstu vikum muni hergögn streyma til Úkraínu, sem eru í sárri þörf á frekari aðstoð.
Frumvarpið sem var samþykkt í gær á hins vegar ekki bara við um Úkraínu heldur inniber það stuðning við Ísrael einnig, upp á 17 milljarða, og Taívan, upp á 8 milljarða Bandaríkjadala.