Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra á Alþingi í morgun hvort Sjálfstæðisflokkurinn vildi afnema öll samkeppnislög, hafa bara einn banka, eitt tryggingafélag og eina matvöruverslun?
Ummælin féllu í rökræðu Sigmars við Bjarna þegar forsætisráðherra varði breytingar á búvörulögum sem minnihlutinn á þingi, VR, Félag atvinnurekenda og Neytendasamtökin segja ólög sem líklega verði hnekkt fyrir evrópskum neytendarétti.
Lögin auka heimild voldugra fyrirtækja líkt og Mata og KS sem hafa hag af landbúnaði til samráðs. Sigmar sagði að formaður Sjálfstæðislfokksins vildi augljóslega að samkeppni ætti bara stundum við. Nýr verkstjóri ríkisstjórnarinnar gæfi augljóslega ekkert fyrir gagnrýni matvælaráðuneytisins.
Sigmar benti á að þau fyrirtæki sem sjálf fá nú auknar heimildir væru sjálf í innflutningi á vonda kjötinu sem Bjarni telur að þurfi að koma böndum á með „vélarnar gangandi allan sólarhringinn“ eins og Bjarni kallaði það.