„Hvaða nýnasistashit er þetta? ,“ spyr einn notandi á Twitter í athugasemd við eina nýjustu færslu Stefáns Mána Sigþórssonar rithöfundar. Færslan hefur vakið umtalsverð viðbrögð en í raun er fyrrnefnd spurning kjarni umræðunnar. Stefán Máni er meðal þekktustu glæpsagnahöfunda Íslands og er bókin hans Svartur á leik líklega þekktust. Enda var gerð kvikmynd úr henni.
Á þeim hluta Twitter þar sem íslenska er töluð hefur orðið nokkuð snörp hægrisveifla, raunar nákvæmara að tala um nýnasistasveiflu. Með öðrum orðum þá vaða uppi aðgangar sem birta ekkert nema kynþáttaníð. Þeim varðar ekkert um verðbólgu eða orkumál, vilja bara tala um illsku útlendinga. Ein birtingarmynd nýnasistasveiflunnar er fréttaveitan Lambi.
Lambi er bara á Twitter og deilir fréttum sem birtast hér og þar, bæði hjá hefðbundnum borgaralegum fjölmiðlum sem og jaðarmiðlum. Þó að Lambi sé kannski víðlesinn þá hefur hann bara áhuga á einu: að sýna að Arabar séu glæpahyski allir með tölu, að sýna að hælisleitendur séu sníkjudýr og sýna að Evrópa sé við það að falla fyrir herjum Íslam. Ef það var ekki augljóst þá er Lambi rasisti.
En Stefán Máni fagnar tilkomu þessarar nýnasísku fréttaveitu inn á fjölmiðlamarkaðinn. „Fylgið Lamba ef þið viljið vita hvernig íslam er smám saman að eyðileggja Norðurlönd og Evrópu. En það er auðvitað auðveldara að stinga hausnum í sandinn. Ég veit ekki hver Lambi er en fréttirnar eru því miður sannar,“ skrifar Stefán Máni og þó að margir bjóði honum að draga í land með því að segja þetta grín þá virðist hann engan áhuga hafa á því. Hann svarar til að mynda ekki baráttukonunni Semu Erlu sem spyr: „Ertu að meina þetta?“ Því svarar Stefán Máni ekki.
Nokkrir benda honum á það sem flestir sjá undir eins: Lambi er auðvitað úlfur í sauðagæru. Með því að tína til öll afbrot framin af múslímum í Evrópu þá er verið að koma fyrir þeirri hugmynd að allir múslímar séu í raun glæpamenn. Þeirri hugmynd að flestir ef ekki allir múslímar hafi óhreint mjöl í pokahorninu. En raunin er auðvitað sú að yfirgnæfandi meirihluti þeirra er álíka löghlýðinn og aðrir hópar.
Mjög auðveldlega mætti búa til sambærilega fréttaveitu um afbrot Íslendinga, bæði hérlendis og erlendis, enda er þjóðin mjög afkastamikil á því sviði. Þrátt fyrir að vera margfalt færri en múslímar í Evrópu þá mætti segja daglega fréttir af nauðgunum og ofbeldisbrotum hér á landi og fíkniefnasmygli erlendis. Sá sem læsi slíka fréttaveitu myndi fljótt fara að gruna að þessi litla þjóð væri í raun óvenju glæpahneigð. Þætti okkur það sanngjarnt?