„Ísland fordæmir árás Írans á Ísrael. Aldrei hefur verið eins mikilvægt að sýna aðhald til að koma í veg fyrir að ástandið stigmagnist enn frekar,“ skrifar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á X.
Spenna er í Miðausturlöndum eftir að Íran lét til sín taka gagnvart Ísrael í gærkvöld með um 300 drónaárásum.
Ísraelsmenn segjast hafa varist flestum árásanna. Íran segir að árásirnar muni stigmagnast ef Bandaríkin hafa afskipti.
Loftárásirnar eru þær fyrstu sem Íran beitir Ísrael í sögu ríkjanna. Afleiðingar gætu orðið nokkrar, því Ísrael nýtur stuðnings stórþjóðana eins og Bandaríkjanna og Stóra Bretlands. Netanyahu, forsætisráðherra Ísraelsmanna, segir á X að „sameinað“ muni Ísrael vinna. Palestínumenn hafa ítrekað beðið nágrannalönd um að svara þjóðarmorði Ísraelsmanna á Gaza.
Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir samkvæmt erlendum fréttamiðlum hvort Ísraelar svara flugskeytunum með beinum hætti. Sumir fréttaskýrendur telja líkur á að gnýr ísraelskra orrustuflugvéla heyrist hvað úr hverju. Ísrael hefur látið sprengjur falla í suðurhluta Líbanon samkvæmt heimildum.
Talið er að 86 palestínsk börn deyi nú daglega á Gaza vegna hernaðaraðgerða Ísraela. Stór hluti mannkyns er orðlaus yfir að alþjóðasamfélagið leyfi ísraelskum hermönnum að kasta ungbörnum á spjótsoddum milli sín svo vitnað sé til orðalags í hinni helgu bók.
Hvort viðbragð Íran tengist ákalli Palestínu liggur ekki fyrir. Hitt liggur fyrir að íslensk utanríkismálayfirvöld brugðust hratt við með stuðningi við Ísrael í nótt.