Ummerki um aftökur, pyntingar og að fólk hafi verið grafið lifandi í fjöldagröfum á Gaza

Vísbendingar eru um að Ísraelsher hafi grafið fólk lifandi, pyntað það og tekið af lífi án dóms og laga við Nasser sjúkrahúsið á Gaza. Áverkar og ástand líkamsleifa í fjöldagröfum sem fundist hafa við spítalana benda til þessa. Fast að því 400 lík hafi fundist í þremur fjöldagröfum við sjúkrahúsið. Þá fannst einnig fjöldagröf við al-Shifa sjúkrahúsið.

Rétt er að vara við lýsingunum sem koma fram hér að neðan.

Uppgröftur hefur nú staðið í viku á svæðinu og þegar hafa 392  lík fundist í fjöldagröfunum. Meðal látinna eru börn, konur og aldrað fólk. Samkvæmt yfirlýsingum embættismanna á Gaza bera líkin merki pyntinga og þess að hafa verið tekin af lífi. Þannig hefur látið fólk fundist klæðalaust í gröfunum og fjölmörg með skotsár á höfði. Þá hafi tíu lík fundist með hendur bundnar á bak aftur og önnur lík hafi fundist með æðaleggi og önnur lækningatæki tengd við sig. Segir fulltrúi almannavarna á Gaza, Mohammed Mughier, í samtali við Al Jazeera, að þörf sé á réttarmeinafræðilegri skoðun á um tveimur tugum líkamsleifa fólks sem talið sé að hafi verið grafin lifandi. 

Aðeins hefur tekist að bera kennsl á 65 lík af þeim 392 sem fundist hafa, meðal annars sökum þess að líkin hafa rotnað en einnig vegna þess að mörg bera greinileg merki pyntinga sem hafa skilið sum þeirra eftir illþekkjanleg. Sumum líkanna sem fundust hafði verið staflað upp og báru merki þess að um fjöldaaftökur hefði verið að ræða. 

„Hví eru börn í fjöldagröfum?“

Yamen Abu Sulaiman, yfirmaður almannavarna í Khan Younis, þar sem Nasser-spítalinn er, kallaði á blaðamannafundi í Rafahborg í gær eftir því að alþjóðasamfélagið setti alvöru þrýsting á Ísraela um að stöðva þegar í stað glæpi sína gegn Palestínumönnum, sem og að mannúðarsamtökum og erlendum blaðamönnum yrði hleypt inn á Gaza til að rannsaka umrædda glæpi. 

Á sama fundi birti Mughier ljósmyndir og myndbönd af líkamsleifum barna og spurði: „Hví eru börn í fjöldagröfum?“ Mughier bætti við að sönnunargögn sýndu að ísraelskir hermenn hefðu „framið glæpi gegn mannkyni“. 

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Volker Turk, hefur kallað eftir því að óháð, skilvirk og gagnsæ rannsókn fari fram. „Sjúkrahús eiga rétt á sérstakri vernd samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og lögum, og vísvitandi morð á almennum borgurum, föngum eða hermönnum sem ekki geta barist vegna sára sinna eru stríðsglæpir,“ sagði Turk. 

Talsmaður Ísraelshers, Nadav Shoshani majór, hélt því hins vegar fram að fjöldagrafirnar við Nasser sjúkrahúsið hefðu verið grafnar af Gazabúum sjálfum fyrir nokkrum mánuðum. 

Talsmaður António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sagði að mjög mikilvægt væri að öll réttarmeinafræðileg sönnunargögn frá fjöldagröfunum verði vel varðveitt. Almannavarnir á Gaza hafa lýst því að þau muni starfa með óháðri rannsóknarnefnd sem rannsaka muni fjöldagrafirnar. 

Ísraelar koma í veg fyrir óháða rannsókn

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Human Rights Watch, prófessor Kenneth Roth, sagði í samtali við Al Jazeera fréttastofuna að með því að Ísraelar kæmu í veg fyrir að rannsakendur kæmust inn á Gaza strönd væru þeir að koma í veg fyrir rannsókn á fjöldagröfunum. Hægt væri að rannsaka þær þrátt fyrir stríðsástandið á svæðinu, ef allir aðilar sýndu samstarfsvilja. Ísraelar vildu hins vgar ekki heimila slíka óháða rannsókn. 

„Þeir vilja bara sópa málinu undir teppið eða segja að þeir hyggist rannsaka málið sjálfir,“ sagði Roth og bætti við að í slíkum tilfellum væri endirinn vanalega sá að enginn væri dreginn til ábyrgðar. 

Bæði Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa kallað eftir óháðri rannsókn á fjöldagröfunum. Bandaríkin hafa einnig kallað eftir rannsókn, en hafa ekki farið fram á að hún sé framkvæmd af óháðum aðilum. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí