Undirskriftir gegn Bjarna Benediktssyni á island.is eru nú komnar yfir 40 þúsund. Þar hefur fólk skrifað undir yfirlýsinguna: Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra. Þau em vilja skrifa undir gera gert það hér: Undirskriftalisti á Ísland.is.
Það stefnir í að þessi mótmæli gegn Bjarna verði einhver þau mestu í sögu undirskriftasafnana hér á landi.
Hér má sjá listann yfir þær safnanir sem hafa farið yfir þrjátíu þúsund markið, en þær eru aðeins 27 á lýðveldistímanum:
- 86.729 undirskriftir: Krafa um að 11% af vergri þjóðarframleiðslu renni í heilbrigðismál (2016)
- 83.353 undirskriftir: Gegn beitingu breska ríkisins á hryðjuverkalögum gegn Íslandi (2008)
- 69.637 undirskriftir: Gegn flutningi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýri (2013)
- 56.089 undirskriftir: Gegn Icesave-samningi 2 (2010)
- 55.522 undirskriftir: Varið land, gegn brottför hersins (1974)
- 53.571 undirskrift: Gegn kvótasetningu á makríl (2015)
- 53.555 undirskriftir: Áskorun um áframhald ESB-viðræðna (2014)
- 50.424 undirskriftir: Áskorun um að Faxaflói verði griðland hvala (2018)
- 47.004 undirskriftir: Gegn sölu HS-orku til Magma Energy (2011)
- 45.744 undirskriftir: Gegn brottvísun hælisleitandans Uhunoma Osayomore (2021)
- 45.386 undirskriftir: Gegn Eyjabakkavirkjun (1999)
- 43.423 undirskriftir: Krafa um nýju stjórnarskrá á grunni þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 (2020)
- 42.400 undirskriftir: Gegn Icesave-samningi 3 (2011)
- 42.343 undirskriftir: Krafa um að hætt verði við áætlanir um virkjanir á íslenska hálendinu (2015)
- 41.525 undirskriftir: Gegn vegatollum (2011)
- 40.382 undirskriftir: Bjarni Benediktsson hefur ekki minn stuðning sem forsætisráðherra (14. apríl 2024, kl. 8:40 – söfnunin stendur í rúma níu daga í viðbót, rúmir fjórir dagar búnir.)
- 37.743 undirskriftir: Krafa um leiðréttingu stökkbreyttra lána og afnám verðtryggingar (2012)
- 37.291 undirskriftir: Gegn breytingum á brjóstaskimunum fyrir krabbameini (2021)
- 36.720 undirskriftir: Ávarp Friðarhreyfingar íslenskra kvenna með ákalli um frið (1985)
- 34.882 undirskriftir: Gegn breytingum á veiðigjaldi (2013)
- 34.378 undirskriftir: Gegn EES-samningum (1992)
- 33.000 undirskriftir: Gegn hvalveiðum (2013)
- 32.044 undirskriftir: Krafa um að DV breyti ritstjórnarstefnu sinni (2006)
- 31.752 undirskriftir: Gegn Fjölmiðlafrumvarpinu (2004)
- 31.000 undirskriftir: Áskorun SÁÁ um að 10% af áfengisgjaldi renni til vímuvarna (2013)
- 30.300 undirskriftir: Krafa um að Sigmundur Davíð segi af sér í kjölfar Panamaskjalanna (2016).
- 30.093 undirskriftir: Áskorun Geðhjálpar um að setja geðverndarmál í forgang (2020)
Þeir sem styðja söfnunina segja að næsta markmið sé að ná 50.000 undirskriftum en aðeins eru tæpir fimm dagar síðan áskoruninni var hrundið af stað.