Atli Örvarsson, Akureyringurinn heimsþekkti sem hlaut nýverið BAFTA verðlaunin sem tónskáld, segir að tónlistin sem hann samdi fyrir þáttaröðina Silo sé beint eða óbeint afrakstur tækifæra sem hann hafi öðlast þegar hann starfaði sem tónskáld í Hollywood.
Í samtali við Björn Þorláks á Samstöðinni lýsir Atli upphafi ferilsins þegar hann spilaði á trompet í leikhúsinu fyrir norðan á Akureyri 13 ára gamall undir My Fair Lady. Þá hafi hann spilað í Bigband sveitum, og blásið í lúðra og leikið á hljómborð í dægurlagasveitum svo sem Sálinni og Stuðkompaníinu. Grunnurinn hafi verið lagður með námi í Tónlistarskólanum á Akureyri.
„Ég var að sjá umfjöllun um að verið væri að draga úr fjárveitingum til tónlistarskóla, ég held að það væru mikil mistök og vona að það verði leiðrétt,“ segir Atli í viðtalinu.
Þá segir tónskáldið að persónuleg reynsla og ekki síst sársaukinn séu gjöfular uppsprettur fyrir þær tilfinningar sem tónsmíðar hans einkenna.
Sjá viðtalið við Atla hér:
Tóndæmi úr Silo má heyra hér: