Nú þegar hraunstraumur ógnar innviðum og byggð á Reykjanesi vaknar spurning hvort náttúruhamfarirnar og afleiðingar þeirra geti haft áhrif á hug landsmanna til persónueinkenna forsetaefnanna í kosningu eftir þrjá daga.
Samstöðin spurði Ólaf Þ. Harðarson stjórmálafræðiprófessor emeritus hvað hann teldi um slíkt – því ætla má að þjóðhöfðingi líkt og forseti Íslands þurfi að búa jafnt yfir hlýju og festu til að hvetja eigin þjóð á erfiðum tíma.
„Það veit enginn,“ svarar Ólafur. „En það gæti hugsanlega haft áhrif.“
Ólafur segir þó erfitt að spá og ekki sé endilega víst að áhrifin verði nokkur.
„Stríð, náttúruhamfarir, plágur og aðrar ytri ógnir auka gjarnan stuðning við ríkjandi stjórnvöld – svokallaður „rally-around-the-flag effect“. Það er þó ekki algilt. Miklar náttúruhamfarir í Tyrklandi fyrir einhverjum misserum styrktu ekki Erdogan, enda stjórnvöld sökuð um léleg viðbrögð,“ segir Ólafur.
„En vel heppnuð viðbrögð íslenskra stjórnvalda gegn Covid-19 – að mati almennings – leiddu vafalítið til þess að ríkisstjórnin hélt velli 2021,“ segir Ólafur.