Enginn ánægður með fylgi til forseta

Stjórnnmála- og fréttaskýrendur eru sammála um að síðustu fylgiskannanir séu til marks um galopna baráttu um Bessastaði. Engin leið er að spá fyrir um hvaða frambjóðandi stendur uppi sem sigurvegari í kjörinu eftir aðeins 12 daga.

Katrín Jakobsdóttir mælist með mesta fylgið í síðustu könnun Prósents fyrir Moggann. 22ja prósenta stuðningur er hins vegar lægri tala en stuðningsmenn Katrínar hefðu viljað sjá eftir því sem innanbúðarmaður í framboði hennar upplýsir. Með sama hætti eru stuðningsmenn Höllu Hrundar uggandi yfir sígandi fylgi. Ein opna spurningin er hvort aðrir frambjóðendur gætu skákað Höllu Hrund og hvort margir velji einhvern annan að lokum en þeir hefðu persónulega viljað. Það er hvort forsetakosningarnar í ár verða ekki hreint persónukjör heldur strategískt kjör hjá sumum kjósenda.

Flestir heimildarmenn Samstöðvarinnar eru sammála um að tvær sviðsmyndir séu nú líklegastar, þar sem enginn frambjóðandi hefur náð að rífa til sín afgerandi fylgi.

Katrín gæti haldið forskoti sínu og orðið forseti með sögulega lágt fylgi miðað við forsetakosningar fyrri tíma.

Hitt gæti einnig gerst að vending yrði í ákvörðunum landsmanna á lokaspretti. Þeir sem vilja alls ekki Katrínu sem forseta gætu valið þann frambjóðanda á lokaspretti sem andófsmenn Katrínar telja líklegastan til að stugga við stöðu hennar. Það gæti sett fyrri mælingar í uppnám.

Margir hafa lýst yfir á samfélagsmiðlum síðustu daga að þeir muni kjósa strategískt. En vandi þeirra er sá að enn er óljóst hver af þeim fjórum sem helst gætu veitt Katrínu keppni teljist sigurstranglegastur kostur.

Framan af bar Halla Hrund Logadóttir höfuð og herðar yfir aðra. Nú hefur Halla Tómasdóttir tekið mikið stökk upp á við. Baldur Þórhallsson er líka með töluvert fylgi og óvarlegt virðist að afskrifa Jón Gnarr að svo stöddu. Aftur á móti benda mælingar til að margt verði að breytast til að Arnar Þór hljóti hnossið.

Það verður því spennandi að fylgjast með framboðsáherslum og fylgismælingum næstu daga. Samstöðin heyrði í nokkrum stuðningsmönnum efstu frambjóðenda í morgun. Sammerkt er af viðbrögðum þeirra að burtséð frá því hvern fólk styður er enginn raunverulega ánægður með fylgismælingu Prósents þótt sumir beri sig betur en aðrir. Þetta á við um stuðningsmenn Katrínar ekki síður en stuðningsmenn annarra framboða.

Önnur breyta er nefnd til sögunnar – hvort stuðningsmenn Katrínar muni skila sér betur inn í kjörklefana en sem nemur mældum stuðningi í könnunum. Tveir aldraðir kjósendur á framboðsfundi Katrínar fyrir norðan lýstu yfir að eldri borgarar væru líklegri til að skila sér á kjörstað fremur en ungt fólk. Niðurbrot á stuðningi við Katrínu sýnir að hún höfðar meira til eldri borgara en flestir aðrir frambjóðendur.

Þá nefna sumir að kosningabaráttan eigi eftir að harðna enn á síðustu metrum. Ekki sé ólíklegt að „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“ líkt og valdsækin öfl með stunda áróður eru stundum kölluð, muni ekki una sér hvíldar.  Finnst þó sumum nóg um það sem þegar er orðið. Ein heimild heldur fram að von sé á „skítabombu sem muni valda usla“.

Allt er því galopið. Og gæti vel farið þannig að Íslendingar fái ekki niðurstöðu úr kjörinu fyrr en síðasta atkvæðið hefur verið talið.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí