Fleiri fasteignir seljast nú á yfirverði en áður. Þrýstingur eykst á leigumarkaði og framboð er í engum takti við eftirspurn.
Þetta má lesa í mánaðarskýrslu HMS fyrir maí 2024 sem kom út í dag.
Veltan er mikil, kaupsamningar á fyrsta ársfjórðungi voru 2.673 talsins, 29 prósentum fleiri en á sama tíma í fyrra. Áberandi er fjölgun samninga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Ríflega helmingi fleiri samningum var þinglýst þar í ár samanborið við 2023 og vega Grindavíkuráhrifin þungt. Hlutfall íbúða sem seldust á yfirverði í mars hækkaði í öllum landshlutum. Fasteignafélagið Þórkatla hefur yfirfarið og samþykkt kaup á 660 húseignum í Grindavík eða um 85% allra umsókna sem borist hafa. Búið er að undirrita og þinglýsa 471 kaupsamningi.
Á höfuðborgarsvæðinu seldust 18,3% íbúða á yfirverði í mars. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins seldust um 14,5% íbúða á yfirverði.
Annars staðar á landinu var hlutfallið 13,1%.
Leigumarkaðurinn ber mikil merki um ójafnvægi framboðs og eftirspurnar. Mun fleiri einstaklingar eru í virkri leit en nemur fjölda íbúða til leigu á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024. Miðað við óskir notenda má áætla að hægt væri að gera milli 1.500 og 2.000 leigusamninga í gegnum vefinn.
Leiguskrá HMS sýnir hins vegar að einungis um 500-800 leigusamningar taka gildi í gegnum vefinn í hverjum mánuði.
Sjá alla skýrsluna hér: https://hms.is/frettir/mana%C3%B0arskyrsla-hagdeildar-hms-fyrir-mai-2024