Ísland er mikill eftirbátur hinna Norðurlandanna er kemur að fjölmiðlafrelsi. Þetta sýnir ný skýrsla samtakanna Blaðamenn án landamæra. Á sama tíma og hin Norðurlöndin skipa efstu sæti vegna fjölmiðlafrelsis situr Ísland í 18. sæti.
Fall Fréttablaðsins var meðal svartra tíðinda í fjölmiðlaheiminum í fyrra. Sjónvarpsstöðvarnar N4 og Hringbraut hættu daglegum útsendingum vegna fjárhagsvanda og sú fyrrnefnda er með öllu úr sögunni. Bót er í máli að Samstöðin hefur fest sig í sessi sem vaxandi fjölmiðill. Samstöðin hefur tvöfaldað hlustun og áhorf á fimm mánuðum og nær til tæplega 40.000 einstaklinga í viku hverri.
Meðal þess sem samtök Blaðamanna án landmæra benda á er að smæð markaðar sé vandamál. Þá er varað við að öflugir sérhagsmunaaðilar líkt og útgerðarmenn reki Moggann og fleiri miðla. Bent er á að fjölmiðlafólk sem rannsakaði spillingarmál í Namibíu, kennd við Samherjaskjöl, hafi gengið í gegnum ófrægingarherferð og lögreglurannsókn. Þá er fundið að þrýstingi þingmanna og fleiri afla sem gagnrýna störf fjölmiðla.
Samstöðin byggir tekjur sínar að mestu á áskriftartekjum en ekki auglýsingum.
Í skýrslunni er nefnt að auknir opinberir styrkir vegna samdráttar í auglýsingatekjum gagnist stærri miðlum á kostnað minni miðla sem sé vandamál.