Vala Hafstað skáld og leiðsögumaður var til umræðu á Alþingi í dag en eins og dyggir lesendur Samstöðvarinnar vita eftir viðtal við Völu, urðu mikil viðbrögð eftir pistil sem hún birti á Vísi um að Rúv virtist stefna að því að útrýma orðinu „maður“ úr tungunni.
Bergþór Ólason Miðflokki spurði Lilju Alfreðsdóttur ráðherra um kynhlutlaust mál sem Rúv væri í forystu fyrir. Hann spurði hvort línur hefðu verið lagðar að „linnulausum árásum á málfræðigrunn íslenskunnar“ eins og hann orðaði það. Hann vildi einnig vita hver afstaða Lilju væri í málinu.
Lilja svaraði að ráðuneyti hennar hefði ekki lagt þessa línu. Hún væri „sjálfsprottin hjá Ríkisútvarpinu“.
„Ég verð að segja það að ég hef talsverðar áhyggjur af því ef misvísandi skilaboð eru um breytingar,“ sagði Lilja.
Bergþór tók sem dæmi hvort fólk segir allir velkomnir eða öll velkomin.
Lilja sagði að þróunin gæti leitt til að erfiðara yrði fyrir fólk af erlendum uppruna að tileinka sér tungumálið.