Mogginn kallar aðgerðir Íslands í loftslagsmálum „tilgangslausar byrðar“

Fjölmiðlar 6. maí 2024

Morgunblaðið segir „kreddurnar“ ekki mega hafa þau áhrif að kostnaður við að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda “fari úr böndum”. Með því sé hætta á að Ísland „veiki stöðu sína og geri sig fátækari“. 

Þetta skrifar leiðarahöfundur Morgunblaðsins í dag, en leiðarinn er að vanda ekki merktur höfundi og því aðeins hægt að geta sér til um hver heldur þar á penna. Ritstjórar Morgunblaðsins eru þeir Davíð Oddsson, 76 ára, og Haraldur Johannessen, 55 ára.

Í leiðaranum er fjallað um álit fjármálaráðs um fyrirliggjandi þingsályktunartillögu að fjármálaáætlun fyrir árin 2025 til 2029. Er vísað til þess að í álitinu segi að áframhaldandi útgjaldaaukning ríkissjóðs sé ekki sjálfbær til lengri tíma og að ekki sé nægilegt að draga úr afkomuhalla ríkissjóðs til að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála til skamms tíma litið því framundan blasi við miklar áskoranir. Í álitinu segi þannig að nauðsynlegt sé að meta áhrif þeirra áskoranna á fjármál hins opinbera næstu áratugi. Tilgreinir fjármálaráð meðal annars öldrun þjóðarinnar og „kostnað við aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda“.

Leiðarahöfundur Moggans segir öldrun þjóðarinnar staðreynd sem takast verið á við og Ísland ætti að geta tekist betur á við þá áskorun en flest önnur lönd. Nauðsynlegt sé að kreddur og fordómar ráð þar ekki för heldur að tekist verði á við viðfangsefnið á sem skilvirkastan hátt, meðal annars með því að nýta kosti einkaframtaksins. 

Um loftslagsbreytingar segir leiðarahöfundur síðan: „Kreddurnar mega ekki heldur verða til þess að kostnaður við að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda fari úr böndum. Íslendingar og Vesturlönd almennt hafa gengið langt í þessum efnum en það hafa aðrar þjóðir ekki gert, sem hefur fremur orðið til þess að færa framleiðsluna í heiminum til en að draga úr útblæstri, auk þess sem hættan er að ríki á borð við Ísland veiki stöðu sína og geri sig fátækari án þess að það breyti nokkru um útblástur heimsins. Þó að Íslendingar séu rík þjóð er engin ástæða til að þeir taki á sig tilgangslausar byrðar.“

Hvaða kreddur það eru sem verið er að vísa til hér er ekki útskýrt frekar en sjá má í fyrrgreindum texta. Ljóst er öllum þeim vilja sjá að ekkert ríki heims er stikkfrí þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, sama hvað leiðarahöfundi Morgunblaðsins finnst um slíkar „kreddur“. 

Í samantekt sjöttu matsskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem gefin var út á síðasta ári segir að draga þurfi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum um helming fyrir árið 2030. Að öðrum kosti muni líf á jörðinni verða fyrir óbætanlegum áhrifum sem vara muni næstu árhundruðin eða jafnvel árþúsundin. „Veröld okkar þarfnast loftslagsaðgerða á öllum sviðum: Allt, alls staðar og allt í einu,“ sagði aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres þegar skýrslan var kynnt 30. mars á síðasta ári. 

Í áliti fjármálaráðs er enda hvergi talað um „kreddur“ heldur augljósar áskoranir sem skapast muni í ríkisfjármálum vegna nauðsynlegra aðgerða í loftslagsmálum. Raunar er aðeins í tvígang talað um umhverfis- eða loftslagsmál í skýrslunni. Annars vegar í því samhengi sem nefnt er hér að framan, þar sem segir að nauðsynlegt sé að meta kostnað sem af því getur hlotist að draga úr útblæstri, og hins vegar þar sem segir að nauðsynlegt sé að draga úr útgjaldavexti til að búa í haginn fyrir framtíðaráföll. Þar er tilgreint að hætta á stigmögnun stríðsátaka, „áskoranir í orku- og umhverfismálum og líkur á áframhaldandi jarðhræringum undirstrika mikilvægi þess að búa í haginn fyrir áföll í framtíðinni“.

Fjármálaráð virðist því gera sér grein fyrir að aðgerðir í loftslagsmálum séu óumflýjanlegar, ólíkt leiðarhöfundi Moggans. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí