Aðalfundur Sambands íslenskra myndlistarmanna gagnrýnir að eftir að nýr safnstjóri Listasafnsins á Akureyri tekur við verði „enginn starfandi í ábyrgðarstöðu hjá safninu með þekkingu og færni til að móta stefnu safnsins á sviði samtímamyndlistar“ eins og það er orðað.
Með ályktuninni tekur SÍM undir áhyggjur Myndlistarfélagsins á Akureyri sem fram hafa komið eftir ráðninguna. Skammt er síðan Sigríður Örvarsdóttir var ráðin í stöðu safnstjóra eftir að Hlynur Hallsson lét af störfum.
Safnafólk sem Samstöðin hefur rætt við er ekki á einu máli hvort ályktun SÍM sé mistök eða þörf brýning. Sumir myndlistarmenn segja illa að Sigríði vegið. Aðrir segja að ályktunin snúist ekki um hennar ráðningu.
Listasafnið á Akureyri hefur gegnt mikilvægu hlutverki með því að birta sumt af því bitastæðasta í myndlist samtímans. Með hliðsjón af þessu vill SÍM hvetja Akureyrarbæ til að ráða nú þegar listrænan stjórnanda við safnið sem unnið getur að stefnumótun á þessu sviði undir stjórn nýs safnstjóra, segir í ályktun SÍM.
Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við HÍ, segir ályktunina „heimskulega“. Með henni sé vegið ómaklega að nýjum safnstjóra.
Sigríður er með MA gráðu í safnafræði frá Háskóla Íslands, BA gráðu í textílhönnun frá Seminaret for Kunst og Haandværk í Danmörku og meistaranám í prjónahönnun frá Academie Royale des Beux-Arts.
Í starfslýsingu þegar staðan ar auglýst var ekki tekið fram að þekking á sviði myndlistar væri skilyrði.
Sigríður sagðist ekki vilja tjá sig þegar Samstöðin bar málið undir hana.